Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur forstjóra SÍ hafa eytt óvissu um hæfi

07.09.2020 - 20:47
Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Krabbameinsfélagið telur að forstjóri Sjúkratrygginga Íslands hafi í fréttum RÚV og Stöðvar 2 í kvöld eytt óvissu um hæfi Leitarstöðvarinnar til að framkvæma skimanir.

Í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins er vísað í orð Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar segist hún ekki hafa séð gögn sem geti staðið undir fullyrðingum Tryggva Björns Stefánssonar skurðlæknis í Kastljósi á fimmtudag. Tryggvi sagði í þættinum að gæðaeftirlit Krabbameinsfélags Íslands hefði verið í lamasessi árið 2017.

Í fréttum RÚV sagði María að stofnunin hefði ekki haft neina vitneskju um umfjöllun Tryggva fyrir viðtalið í Kastljósi. Hún sagði að Sjúkratryggingar viti ekki til hvaða gagna hann hafi verið að vitna. „Hins vegar kom fram skjal seint í dag sem við höfum þegar afhent Krabbameinsfélaginu og átt fund með þeim og munum fara betur yfir það skjal með þeim á fundi með landlækni á morgun.“ 

Skjalið væri frá áramótum 2017-18, útbúið af Sjúkratryggingum Íslands og fjalli að nokkru leyti um árangur af þjónustusamningi Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið. María sagði í fréttatímanum að Sjúkratryggingar hyggist ræða við Tryggva um málið.

Í svari frá félaginu við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að ekki hafi unnist tími til að fara yfir innihald skjalsins nýfundna.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu kemur fram að stjórn félagsins fagni því að ummæli Tryggva valdi ekki lengur efa um hæfni félagsins til að framkvæma skimanir og starfsemi Leitarstöðvarinnar haldi því áfram með óbreyttu sniði. 

„Krabbameinsfélagið vinnur áfram með Embætti landlæknis sem hefur hið alvarlega atvik sem upp kom á Leitarstöð til skoðunar,“ segir í lok tilkynningarinnar og er þar vísað til mannlegra mistaka sem urðu þess valdandi að kona er með ólæknandi krabbamein eftir að lesið var rangt úr skimun hennar. Endurskoða þarf 6.000 sýni og hafa 45 konur þegar verið kallaðar aftur inn til skimunar.