Segir djarft skref að fjárfesta í flugfélagi

07.09.2020 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Magnússon prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, segir að gríðarleg áhætta sé fólgin í fjárfestingu i flugfélagi um þessar mundir og að það yrði erfitt skref fyrir lífeyrissjóðina að leggja fram verulegt fjármagn. Slík fjárfesting krefjist aðila sem hafi meira tapsþol og betri tengingu við fluggeirann. Slíkur aðili sé ekki til á Íslandi og jafnvel ekki erlendis þessa stundina.

Þetta kom fram í máli Gylfa í pallborðsumræðu á málþingi á vegum Hagfræðistofnunar og viðskiptafræðideildar síðdegis.  Á málþinginu greindi Simon Theeuwes,  sérfræðingur í flugsamgöngum, frá niðurstöðum skýrslu SEO Amsterdam Economics um áhrif Covid-19 á flugsamgöngur og bar saman Ísland og Holland. Hann fór þar í gegnum fjórar sviðsmyndir þar sem það tók mislangan tíma fyrir faraldurinn að ganga yfir, bóluefni að gagnast og fluggeirann að taka við sér á ný.

Gylfi Magnússon, prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálafræðum, Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur samtaka fjármálafyrirtækja voru í pallborði og ræddu efni skýrslunnar út frá aðstæðum hérlendis og í samhengi við hlutverk lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta í grunninnviðum hagkerfisins. 

Ekki lífeyrissjóða að bregðast við innlendri krísu 

Gylfi sagðist ekki ætla að segja til um hvort lífeyrissjóðir ættu að fjárfesta í Icelandair. Það væri djarft skref fyrir lífeyrissjóðina sem fjárfesti með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi en ekki til að bregðast við innlendri krísu. Frekar að ríkið stígi inn með hlutafé, ekki til þess að eiga um alla framtíð heldur til að selja síðar. Sambærilegt og þegar ríkið átti 20 prósenta hlut í forvera Icelandair fyrir meira en 30 árum. Gylfi sagði að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita Icelandair ríkisábyrgð feli í sér að hún vilji halda félaginu á floti.  

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálafræðum, segir að skoða verði fjárfestingakosti út frá breyttri heimsmynd. Fjárfesting í flugfélagi í dag væri fjárfesting í fyrirtæki í vanda. Hann segir að það skipti máli að horfa ekki á þetta eins og venjulegan fjárfestingarkost. Þjóðarflugfélögin í heiminum séu að lifa af faraldurinn með mismunandi leiðum til aðstoðar. Hann velti því upp hvort það væri góð fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina að fjárfesta til langs tíma í grunninnviðum í samstarfi við opinbera aðila. 

Spá hægfara vexti

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur samtaka fjármálafyrirtækja, kvaðst sammála Gylfa að áhætta í fjárfestingu í Icelandair væri erfið fyrir lífeyrissjóði. Samtökin vinni út frá þeirri sviðsmynd sem gangi út frá því að bóluefni komi fram á næsta ári og hægfara vöxtur fari í gang sem skili svipaðri stöðu árið 2023 og var í fyrra. Icelandair hafi náð að endursemja við launþega sína og náð þannig fram endurskipulagi á kostnaði sambærilegu og fáist ef skipt er um kennitölu. Kostnaðarstrúktúr félagsins hafi verið leiðréttur. 

Gylfi sagðist viss um að þrátt fyrir að nú sé krísa í ferðaþjónustu verði staðan í lagi til lengri tíma litið. Faraldurinn gangi yfir, það sé bara ekki vitað hvenær. Á endanum opni landamæri og fólk fari að ferðast aftur milli landa. Hann segir að ef hann eigi að spá fimm eða tíu ár fram í tímann þá telji hann að Icelandair verði áfram á sömu kennitölu, fleiri erlend flugfélög séu farin að fljúga hingað og ódýrt innlent flugfélag komið fram. Á endanum verði þetta efnahagsleg pína til skamms tíma. Spurningin sé hver eigi að taka áhættuna. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi