
Samkaup kemur til móts við ósátta íbúa
Í vor breyttust Kjörbúðirnar í Reykjahlíð og Búðardal í Krambúðir og íbúarnir eru mjög ósáttir við hækkað verðlag. Skrifað var undir undirskriftalista á báðum stöðum þar sem þess var óskað að Kjörbúðirnar kæmu aftur
Íbúum sveitarfélaganna býðst þjónustan í tilraunaskyni frá og með deginum í dag og er ætlað að mæta óskum viðskiptavina. „Við höfum verið í góðum samskiptum við íbúa sveitarfélaganna og erum sífellt að leita leiða til að bæta þjónustu okkar. Með netverslun Nettó gefst okkur tækifæri á að bjóða íbúum á þessum svæðum upp á enn hagstæðari verð í heimabyggð,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Einungis þurrvörur á boðstólnum til að byrja með
Íbúum gefst kostur á að panta vörur í gegnum netverslun Nettó og fá þær afhentar í Krambúðum á svæðinu. Til að byrja með verður eingöngu hægt að panta þurrvörur en í tilkynningu frá Samkaupum kemur fram að unnið sé að því að bæta aðstöðu í Krambúðunum á viðkomandi stöðum svo hægt sé að taka á móti kæli- og frystivörum.
Má alltaf gera betur
Ragnheiður Jóna Leví Grétarsdóttir, íbúi í Mývatnssveit hefur barist fyrir því að fá Kjörbúðina aftur. Hún segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar Samkaup tilkynnti í lok ágúst að búðinni yrði ekki breytt aftur í fyrra horf. Þessi ákvörðun að bjóða upp á heimsendingu sé framför en það megi alltaf gera betur. Til að mynda séu bara tveir heimsendingardagar, og heimsending ekki frí nema verslað sé fyrir 15 þúsund eða meira sem geti verið erfitt, sérstaklega þegar einungis sé boðið upp á þurrvöru.