Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Saga sem er hvorki háð stað né tíma

Mynd: Forlagið / Forlagið

Saga sem er hvorki háð stað né tíma

07.09.2020 - 10:25

Höfundar

Sumarbókin eftir Tove Jansson sem kom út 1972 bregður upp myndum úr sumardvöl lítillar fjölskyldu á eyju í finnska skerjagarðinum. Bókin var þýdd af Ísaki Harðarsyni og er bók vikunnar á Rás 1.

„Sumarbókin, hún lætur óskaplega lítið yfir sér en þetta er einhvern veginn bara svona bók um lífið og dauðann. Og persónurnar þarna, amman og ömmustelpan, hún Soffía, bókin fjallar aðallega um samskipti þeirra og samtöl og hvað þær eru að bralla sama. Þarna mætist æskan og ellin, sakleysið og reynslan, frekjan í stelpunni og yfirvegunin sem amman hefur reynt að temja sér yfir ævina.“ Þannig lýsir Ísak Harðarson þessu verki Tove Jansson sem hann þýddi og er nú bók vikunnar á Rás 1.  

Tove Jansson fæddist árið 1914 og lést árið 2001. Hún er langþekktust fyrir bækur sínar um múmínálfana, en hún skrifaði líka smásögur og skáldsögur fyrir fullorðna. Fyrsta smásagnasafnið hennar, Dóttir myndhöggvarans, frá 1968 er að miklu leyti sjálfsævisögulegt eins og nafnið gefur til kynna, en faðir Tove var myndhöggvarinn Viktor Jansson og móðir hennar, Signe Hammarsten-Jansson, var myndskreytir og grafískur hönnuður. Tove stundaði sjálf listnám á yngri árum og skapaði margs konar myndlist, meðal annars myndskreytti hún bækurnar sínar sjálf. Kunnastar eru þó myndir hennar af múmínálfunum og þeirra kunningjum. 

Sumarbókin kom út árið 1972. Hún bregður upp myndum úr sumardvöl lítillar fjölskyldu á eyju í finnska skerjagarðinum. Stúlkan Soffía er þar með ömmu sinni og föður en strax í öðrum kafla kemur fram að hún sefur núna í sínu eigin rúmi af því að mamma hennar er dáin. Persónurnar í bókinni eru byggðar á móður Tove Jansson, bróður hennar og bróðurdóttur. Sjálf dvaldi Tove mikið í skerjagarðinum bæði sem barn og fullorðin og eyjalífið er eitt meginþema bókarinnar. Auk þess var móðurmissir Tove greinilega ofarlega í huga þegar hún skrifaði Sumarbókina, en móðir hennar lést árið 1970, þ.e.a.s. tveimur árum áður en bókin kom út.  

„Ég veit það alla vega um Tove Jansson að mikinn hluta ævinnar þá bjó hún einmitt á eyju eða eyjum í finnska skerjagarðinum. Mætti þangað snemma á vorin og fór seint að hausti en hefur líklega verið á meginlandinu um veturinn,“ sagði Ísak Harðarson í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur fyrr á þessu ári. Hann vill þó meina að Sumarbókin sé hvorki háð stað né tíma. „Hún er svo tímalaus og hún getur gerst hvenær sem er, þessar litlu sögur sem mynda þessa bók. Amman og Soffía ásamt pabbanum, sem kemur lítið við sögu, þær eru náttúrulega staddar á eyju í finnska skerjagarðinum og þær gætu verið hvar sem er.“ Í upptökunni má einnig heyra upplestur Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur á völdum köflum úr bókinni.  

Gestir í sunnudagsþætti Bókar vikunnar eru rithöfundarnir Gerður Kristný Guðjónsdóttir og Áslaug Jónsdóttir. Þær hafa báðar spreytt sig á að þýða texta eftir Tove Jansson. Áslaug þýddi brot úr Sumarbókinni og birti á vefsíðu sinni fyrir nokkrum árum og Gerður Kristný þýddi Sögur úr Múmíndal sem komu út fyrr á þessu ári. Umsjón með þættinum hefur Auður Aðalsteinsdóttir.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Mér finnst óhemjugaman að þýða“

Bókmenntir

Undraheimur höfundar sem var að drukkna úr aðdáun

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Bókmenntir

„Þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson“