Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ræðir við heimamenn um aðgerðir vegna atvinnuástands

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Lykillinn að því að geta skipulagt aðgerðir sem skila árangri er að hlusta og taka mið af ólíkum sjónarmiðum, sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, eftir fund með sveitarstjórnarmönnum í Reykjanesbæ í hádeginu. Þá var hann á leið á fleiri fundi með fólki á Suðurnesjum til að ræða leiðir til að bregðast við efnhagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins.

„Það er auðvitað þannig að atvinnuleysið sem fylgir COVID-19 leggst misþungt á svæði, það leggst mjög þungt á Reykjanesið. Við erum einfaldlega stödd hér til að skoða hvaða aðgerðir er hægt að ráðast í hér í vinnumarkaðsmálum til styðja betur við svæðið og svæði sem eru í sambærilegri stöðu,“ sagði Ásmundur Einar í samtali við fréttastofu nýstiginn út af fundi með bæjarstjórnarfólki Reykjanesbæjar.

„Menn voru að viðra ákveðnar hugmyndir og sjónarmið og ræða hvaða aðgerðir væri hægt að ráðast í. Við erum að leita að sameiginlegum fleti hvernig við höldum á því í framhaldinu. Við höldum því samtali áfram fram í daginn,“ sagði Ásmundur Einar um fundinn með bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hann var þá á leið á fund með fulltrúm atvinnurekenda og stéttarfélag. Hann ræðir síðar í dag við starfsfólk Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og bæjarstjórnarfólk úr Suðurnesjabæ. Með Ásmundi í för eru ráðuneytisstjóri félags- og barnamálaráðuneytisins, starfsfólk ráðuneytisins og starfsfólk Vinnumálastofnunar.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Reykjanesbær.

Ásmundur Einar segir að leitað verði lausna í samtali við heimamenn: „Ég held að það sé hvernig ríkið og sveitarfélög geta í sameiningu tekið utan um fólkið, bæði í félagsþjónustunni og hvernig við getum tryggt að hvatarnir sem eru í kerfinu aðstoði bæði fólk og fyrirtæki við að skapa verðmæti og kannski ráðast í verkefni til að tryggja virkni. Við munum halda áfram að vinna það eftir þennan dag hér,“ sagði Ásmundur Einar. „Ég held að lykillinn að því að geta skipulagt aðgerðir sem skila árangri sé að hlusta og taka mið af ólíkum sjónarmiðum. Við erum hingað komin til að skipuleggja næstu skref.“

Mikilvægt er að sjá hvað hægt er að gera til að koma atvinnulífinu af stað og minnka atvinnuleysi,“ sagði Ásmundur Einar. „Það gerist ekki nema allir lendi hönd á plóg; bæði stéttarfélög, atvinnurekendur, sveitarfélög og aðrir.“