Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mögulega hætt við Nord Stream 2

07.09.2020 - 18:17
Mynd: EPA-EFE / EPA
Þjóðverjar hafa gefið í skyn að mögulega verði hætt við gaslögnina Nord Stream 2, gefi Rússar ekki viðunandi skýringar á hvernig stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny veiktist af taugaeitrinu novichok. Navalny er kominn til meðvitundar eftir að hafa verið haldið sofandi á Charite-sjúkrahúsinu í Berlín. Hann er áfram í öndunarvél og segja læknar að of snemmt sé að segja til um langtímaáhrif eitursins.

 

Eiturbyrlun hafin yfir allan vafa

Læknar á sjúkrahúsinu og þýsk stjórnvöld segja hafið yfir allan vafa að honum hafi verið byrlað taugaeitrið novichok. Rússnesk stjórnvöld harðneita að hafa eitrað fyrir Alexei Navalny og hafa ekki brugðist við kröfu þýsku stjórnarinnar um rannsókn á því sem Angela Merkel kanslari kallaði morðtilraun í síðustu viku.

Refsiaðgerðir ef ekki berast viðunandi svör

Þjóðverjar hafa sagt að fái þeir ekki viðunandi svör frá Rússum verði gripið til refsiaðgerða. Tekið var til þess að Merkel var óvenju harðorð í síðustu viku er skýrt var frá því að sannanir lægju fyrir að Navalny hefði verið byrlað novichok. Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær í viðtali við dagblaðið Bild að Þjóðverjar ætluðu að leggja til að Evrópusambandið beitti Rússa refsiaðgerðum.

Kanslarinn útilokar ekkert

Í dag var Steffen Seibert, talsmaður þýsku stjórnarinnar, spurður hvort mögulega ætti að hætta við gaslögnina Nord Stream 2.

Kanslarinn telur rangt að útiloka eitthvað sagði Seibert. Hann sagði jafnframt að ákvörðun yrði ekki tekin á allra næstu dögum en hún drægist samt ekki í mánuði eða til áramóta.

Tvöfaldar gasútflutning Rússa til Evrópu

Nord Stream 2 gasleiðslan er gríðarmikil framkvæmd og nú á lokastigi, en með henni tvöfaldaðist gasútflutningur Rússa til Evrópu. Hingað til hafa þýsk stjórnvöld ekki viljað ræða þann möguleika að hætt verði við Nord Stream 2.