
Minni eftirspurn eftir meðferð ungs fólks vegna aðgerða
Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins vera hugsi yfir tví-skinnungi sem henni finnst birtast í baráttunni við COVID-19. Átta hundruð þúsund manns hafi látist úr sjúkdómnum, en á hverju ári deyi átta milljónir vegna tóbaksreykinga og þrjár milljónir vegna ofneyslu áfengis.
„Þetta eru fyrirbyggileg dauðsföll sem hægt er að sporna við, en það er ekki verkefni sem heimurinn hefur tekið að sér hingað til. Þetta eru sláandi tölur, 8 milljónir á ári sem deyja ótímabært úr tóbaksreykingum. Á meðan það eru bara tölur og ekki í samhengi við annað þá eru engin viðbrögð,“ segir Valgerður.
Vandinn versnaði í samkomubanni
Hún segir að áhrif farsóttarinnar og samkomutakmarkana komi fram í starfi SÁÁ á Vogi.
„Við sjáum hjá þeim sem eru að koma til okkar núna að það hefur verið meiri einangrun og minni félagsleg samskipti, eðlilega og það fyrir suma er það erfitt. Fyrir þá sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda, þá versnar vandinn,“ segir Valgerður.
Hins vegar séu dæmi um að dregið hafi úr neyslu annarra hópa.
„Við sjáum að það er talsvert minni eftirspurn eftir meðferð til dæmis hjá yngstu hópunum það sem af er þessu ári, þannig að það er örugglega hægt að sjá mjög jákvæð áhrif á áfengis- og vímuefnaneyslu með þessum aðgerðum sem eru í gangi í dag í samfélaginu,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir.