Miklir eldar í Kaliforníu

07.09.2020 - 11:43
epa08652269 The Creek Fire burns the forest near Shaver Lake in the Sierra National Forest, California, USA, 07 September 2020. According to reports, the creek fire already burnt over 36,000 acres of forest.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
Eldur í Sierra-þjóðarskóginum nærri Shaver-vatni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum sýslum í Kaliforníu vegna mikilla skógarelda sem þar geisa. Átta hafa farist í skógareldum í Kaliforníu á síðustu þremur vikum og um 3.000 hús eða önnur mannvirki hafa brunnið. 

Mjög heitt hefur verið í Kaliforníu að undanförnu og komst hitinn í 49 stig í Woodland Hills í suðvestanverðum San Fernando-dalnum í gær. Að sögn yfirvalda er gróður svo þurr að lítið þurfi til að kveikja stórt bál.

Þannig hafi flugeldur kveikt eld sem logað hafi austur af San Bernadino síðan á laugardag. Þar séu að störfum 500 slökkviliðsmenn með fjórar þyrlur sér til aðstoðar.

Í fyrrinótt var þjóðvarðlið kallað út til að flytja um 200 manns með þyrlum frá Sierra-þjóðarskóginum norðaustur af Fresno, fólk sem þar hafði orðið innlyksa vegna eldhafs við vegi allt í kring.

Eldur hefur logað þarna síðan á föstudag og hafa um 30.000 hektarar af skógi brunnið. Um 800 slökkviliðsmenn berjast þarna við elda á svæði sem er afar erfitt yfirferðar.

Nærri San Diego loga einnig eldar sem breiðast hratt út og hafa meira en 4.000 hektarar lands brunnið á skömmum tíma.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi