Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Margra mánaða bið eftir símavini

Mynd með færslu
 Mynd: Stocksnap - Pexels
Um 25 bíða nú eftir að fá úthlutað símavini hjá Rauða krossinum. Verkefnisstjóri segir það geta tekið fólk langan tíma að stíga það skref að óska eftir símavini. Yngri notendum og einnig erlendum hefur fjölgað.

Verkefnið Símavinir hjá Rauða krossinum tók mikinn kipp í faraldrinum í vetur. Sjálfboðaliðar hringja til þeirra sem þess óska og spjalla tvisvar sinnum í viku og markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun. Notendum fjölgaði um 90 prósent, fóru frá örfáum upp í 80 manns á örskömmum tíma. Þegar fyrsta bylgjan var gengin yfir fækkaði notendum - og sjálfboðaliðum um leið. 

25 manns á biðlista

Sigríður Ella Jónsdóttir, verkefnisstjóri Símavina segir um 50 manns með símavin í dag en 25 manns á biðlista. Lítið hafi þokast til á listanum í þrjá mánuði vegna skorts á sjálfboðaliðum. Biðin sé því löng og margir hafi ef til vill líka þurft langan tíma í að stíga það skref að óska eftir símavini.

Mikil þörf á sjálfboðaliðum

Hún segir meirihluta þeirra sem óska eftir símavini eldri en fimmtugt en það hafi þó orðið breyting á og yngri notendum, og einnig erlendum, hafi fjölgað. Enn berist nýjar umsóknir, hvort sem það sé vegna þess að fólk viti nú af verkefninu eða vegna annarar bylgju COVID. Mikil þörf sé á fleiri sjálfboðaliðum. „Maður lærir virka hlustun, maður kynnist nýju fólki þannig að ég myndi segja að maður væri að gera lítið fyrir mikið“ segir Sigríður Ella.  

Upplýsingar um Símavini má finna hér.