Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jón Baldvin ákærður fyrir kynferðisbrot

07.09.2020 - 06:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Saksóknari hefur ákært Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, fyrir kynferðisbrot.

Jón Baldvin greinir sjálfur frá þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segir sakarefnið vera að hann hafi „strokið utan klæða upp og niður eftir rassi“ viðkomandi. Jón Baldvin  segir ákæruna vera útspil í skipulagðri aðför að mannorði sínu. 

Fréttastofa greindi frá því í mars 2019 að Jón Baldvin hefði verið kærður og boðaður í skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem málið væri í rannsókn. Hann er ákærður fyrir kynferðisbrot á heimili sínu í Salobrenia á Spáni 16. júní 2018.

Í viðtali í Silfrinu í febrúar í fyrra sagði Jón Baldvin að atvikið sem hann er nú ákærður fyrir hafi verið sviðsett. Það var í kjölfar þess að fjöldi kvenna gekk í Facebook-hóp í janúar sama ár og sökuðu hann um kynferðislega áreitni. 

Í greininni í Morgunblaðinu greinir Jón Baldvin einnig frá því að eiginkona hans, Bryndís Schram, hafi skrifað bók um það sem hann kallar fjölskylduharmleik og setji málið og ásakanir á hendur honum „í samhengi við þann þjóðfélagslega veruleika, sem við búum við,“ skrifar Jón Baldvin og segir bókina koma í verslanir á næstu dögum.