Icelandair fékk rúman þriðjung uppsagnarstuðnings

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skatturinn greiddi rétt tæpa 8 milljarða króna í stuðning til fyrirtækja vegna hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti í maí, júní og júlí. Í dag var birtur listi yfir þau 272 fyrirtæki sem hafa fengið stuðning.

Icelandair fékk langmest

Icelandair ehf. fékk langmestan stuðning eða tæpa 2,9 milljarða króna vegna greiðslu launa 1889 starfsmanna. Stuðningur til flugfélagsins nemur rúmum þriðjungi heildarstuðningsins.

Flugleiðahótel hf., sem er að hluta til í eigu Icelandair Group, fékk næstmestan stuðning; rúmlega 450 milljónir króna fyrir greiðslu launa 480 starfsmanna. Þá fékk Íslandshótel hf. rúmlega 435 milljónir og Bláa lónið hf. rúmar 425 milljónir króna. 

Næst á listanum eru Miðbæjarhótel/Centerhotels ehf., Allrahanda GL ehf., APA ehf., Fosshótel Reykjavík ehf., ALP hf., Hótel Saga ehf., Straumhvarf ehf. og Iceland Travel ehf. sem er hluti af Icelandair Group. 

Lista yfir fyrirtækin má nálgast hér.

Áætluð heildarútgjöld voru um 27 milljarðar

Stuðningurinn er veittur samkvæmt nýjum lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti sem samþykkt voru á Alþingi þann 29. maí síðastliðinn. Úrræðið var kynnt sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins hér á landi í lok apríl.  

Stuðningurinn nemur að hámarki 85 prósentum af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti og nær til þeirra sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins nemi um 27 milljörðum króna.  

Í lögunum segir að þau gildi um „fjárstuðning til þeirra atvinnurekenda sem hafa sagt launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þess verða raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru sem hófst hér á landi í febrúar 2020“. 

Samkvæmt lögum þurfa fyrirtæki að uppfylla tiltekin skilyrði til að eiga rétt á stuðningi vegna uppsagna. Til dæmis þarf meðaltal mánaðartekna atvinnurekenda að hafa lækkað um a.m.k. 75 prósent í samanburði við tiltekin viðmiðunartímabil. Þá má hann ekki vera í vanskilum með opinber gjöld og ekki hafa ákvarðað úthlutun arðs frá 15. mars síðastliðnum.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi