Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vill að Færeyjar verði teknar af rauðum lista Noregs

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Kaj Leo Holm Johannesen heilbrigðisráðherra Færeyja vill að eyjarnar verði teknar af rauðum lista Norðmanna.

Þar er að finna ríki þar sem kórónuveirusmit eru útbreidd. Ferðamenn frá þeim ríkjum þurfa einnig að sæta strangri sóttkví. Nafn Færeyja fór á listann í ágúst samtímis Íslandi og fleiri ríkjum.

Á fundi norrænna heilbrigðisráðherra á föstudag benti sá færeyski á að virkum smitum á eyjunum stafaði að mestu frá skipverjum rússneska togarans Yantarnyy. Flest smit sumarsins koma til vegna erlendra sjómanna segir Johannesen.

Veran á listanum valdi Færeyingum vanda, einkum þeim sem starfa í Noregi, enda sé fjöldi smita í landinu misvísindandi. Siðastliðinn miðvikudag var tilkynnt að hætt yrði að skrásetja veikindi rússnesku sjómannanna sem færeysk kórónuveirutilfelli. Það breytist aftur stígi þeir fæti á færeyska grund.

Þannig verður farið að eftirleiðis með erlenda skipverja sem greinast með Covid-19 að sögn Lars Fodgaard Møller landlæknis Færeyja. Með þessu fara Færeyingar að ráðum dönsku smitvarnarstofnunarinnar en nýja aðferðin er þó ekki afturvirk.