Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir augljóst að félagið beri ábyrgð á mistökum

06.09.2020 - 19:44
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir augljóst að félagið beri ábyrgð á mistökum við skimun við leghálskrabbameini. Ein kona sem fór í skimun er nú með ólæknandi krabbamein. Framkvæmdastjórinn segir að ef til séu gögn um að starfsemin uppfylli ekki skilyrði þá sé það alvarlegur trúnaðarbrestur. Hún hafi ekki áður heyrt um þau gögn.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir málið grafalvarlegt og að það sé mikilvægt að Krabbameinsfélagið beri ábyrgð á því sem hafi farið úrskeiðis. Fram hefur komið í tilkynningu frá félaginu að starfsmaður sem fór yfir sýnin hafi átt við veikindi að stríða en að ekki sé víst að það sé ástæða mistakanna. 

Ingvar Þór Björnsson, fréttamaður, ræddi við Höllu í beinni útsendingu í sjónvarpfréttum í kvöld. Hann spurði Höllu hvort félagið væri með viðbrögðum sínum að víkja sér undan ábyrgð. „Nei, það er mjög langt frá því. Það er mjög augljóst að það er Krabbameinsfélagið sem ber ábyrgð í þessu máli,“ sagði hún og kvaðst vilja ítreka að hugur allra hjá félaginu sé hjá konunni sem varð fyrir atvikinu og hennar fjölskyldu.

Tryggvi Björn Stefánsson, læknir, sem gerði kröfulýsingu á starfseminni fyrir þremur árum, segir að gæðakerfi félagsins hafi ekki uppfyllt viðmið Evróputilskipana. Er ástandið svo slæmt? „Þetta eru ummæli sem komu okkur algjörlega í opna skjöldu því að raunin er sú að við höfum ekki heyrt af úttekt. Við höfum ekki heyrt af neinu slíku og okkur hefur verið falið að sinna skimunum fyrir þessum krabbameinum á samningi við Sjúkratryggingar. Þær hafa óskað eftir því að félagið sinni þessari þjónustu. Í því náttúrulega liggur að það blasir við að uppfyllum þær kröfur sem Sjúkratryggingar gera til starfseminnar. Þannig að við eigum ekki von á öðru en að þau gögn sem hljóta að liggja þarna að baki séu hreinlega ekki til,“ segir Halla. 

Þau viðmið sem þarna sé um að ræða komi í gegnum kröfulýsingu sem að gildi um starfsemina og komi fram í þjónustusamningi þar sem vísað er í Evrópuviðmiðin, segir Halla. „Já, við teljum að við uppfyllum þau skilyrði,“ segir hún. 

En ef að gögn staðfesta þessa úttekt, hvað verður þá um ykkar starfsemi? „Það er alveg ljóst að ef að það koma fram gögn núna um að árið 2017 og 2018 hafi verið upplýsingar um það að Krabbameinsfélagið uppfyllti ekki þessar kröfur sem um ræðir að þá náttúrulega hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur. Ef það er staðan, þá getum við ekki sinnt starfseminni áfram.“

Endurskoða 6.000 sýni

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að endurskoða sex þúsund sýni úr leghálsskoðun eftir að í ljós kom að mistök höfðu verið gerð við greiningu einhverra þeirra. Félagið hefur haft samband við um fimmtíu konur sem fengu ranga niðurstöðu.

Mynd með færslu
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV

Heilbrigðisráðherra ræddi við Landlækni í dag sem telur nauðsynlegt að fara í saumana á þessum tilvikum ásamt að fara yfir verklag og gæðamál sem tengjast sýnatökunni. „Þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál og náttúrulega þyngra en tárum taki að það hafi komið upp. Ráðuneytið sjálft hefur ekki komið að málinu með beinum hætti ennþá en ég tel ástæðu til þess að við hittum hlutaðeigandi og förum vel yfir málið í byrjun vikunnar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Hún segir jafnframt að það sé ljóst að það þurfi að grípa til aðgerða strax vegna þeirra þúsunda kvenna sem hafi miklar áhyggjur af stöðunni. Embætti landlæknis vinnur að tillögum þar um.

Svandís vill ekki tjá sig um hvort hún telji að óháður aðili eigi að skoða sýnin, hvort æskilegt sé að fleiri en einn fari yfir hvert sýni eða hvort hún telji konurnar sem málið snertir eigi að fá skaðabætur.

Eins og áður sagði kom fram í yfirlýsingu frá Krabbameinsfélaginu að mistök við greiningu sýnanna hefðu verið rakin til eins starfsmanns, sem hefði átt við veikindi að stríða. „Mér finnst auðvitað mikilvægt að félagið sem slíkt beri ábyrgð á því sem þarna fór úrskeiðis. Mér finnst ekki sérstaklega mikill sómi af því að benda á tiltekna starfsmenn. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig um það.“

Tryggvi Björn Stefánsson, krabbameinsskurðlæknir, gerði kröfulýsingar fyrir hönd Sjúkratrygginga árið 2017 þar sem kannað var hvort Krabbameinsfélagið væri fært um að sinna skimun. Hann sagði í Kastljósi í síðustu viku að gæðakerfi félagsins hafi ekki uppfyllt viðmið Evróputilskipana.

Af hverju fékk Krabbameinsfélagið að halda þessari vinnu áfram? „Ég hef ekki séð þetta gagn sem vísað er til þarna. Það hefur ekki ratað á mitt borð og það er eitthvað sem við þurfum að skoða í vikunni,“ segir Svandís. 

Stefna að breyttu fyrirkomulagi skimunar

Hefur Krabbameinsfélagið verið fært um að sinna þessu mikilvæga hlutverki fyrir ríkið? „Skimunarráð og embætti landlæknis gerði raunar þær tillögur til mín í fyrra að þessu fyrirkomulagi yrði breytt. Skimunarráð taldi að það yrði öruggara fyrir íslenskan almenning að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Þangað stefnum við og vonandi í góðu samráði við alla aðila.“