Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ofsaveður í aðsigi í Japan og Suður-Kóreu

06.09.2020 - 04:10
epa08648649 High waves hit the coast in Miyazaki, Miyazaki Prefecture, southwestern Japan, 05 September 2020. Japan's Meteorological Agency has said it will issue the highest extreme warning to southwestern Japan while powerful typhoon Haishen is approaching to southwestern Japan.  EPA-EFE/JIJI JAPAN OUT EDITORIAL USE ONLY/  NO ARCHIVES
 Mynd: EPA-EFE - JIJI PRESS
Geysiöflugur fellibylur nálgast nú suðurhluta Japans. Búist er við gríðarlegu ofviðri og óskaplegri rigningu þegar í dag. Orkan verði svo ofboðsleg að rafmagnsstaurar geti hrokkið í sundur og farartæki fokið um koll.

Fellibylurinn Haishen fór í gærkvöldi yfir Amami-eyjaklasann sem er hluti stærri eyjaklasa, Ryukyu-eyja. Þar er Okinawa stærsta eyjan.

Styrkur fellibylsins slær upp í 70 metra á sekúndu þar sem hann þeysir í átt að vesturströnd Kyushu, þriðju stærstu eyju Japans. Að sögn Veðurstofu Japans gengur hann þar yfir í kvöld og fram á mánudagsmorgun. Eftir það skellur Haishen á Suður-Kóreu.

Fyllsta öryggis gætt

Meira 200 þúsund íbúar Kyushu eru hvattir til að leita skjóls. Í stað þess að koma sér fyrir í skólum og öðrum opinberum byggingum hafa margir þeirra komið sér fyrir á hótelum. Að sögn fjölmiðla á eyjunni er það til að draga úr hættunni á að smitast af Covid-19 í fjölmenni opinberu bygginganna.

Fjölda flugferða hefur verið aflýst og stórfyrirtæki hafa ákveðið að loka verksmiðjum sínum þar til óveðrið gengur yfir. Leit að áhöfn flutningaskipsins Gulf Livestock 1 er frestað en japönsk strandgæsluskip bíða átekta í vari þar til hægt verður að halda til hafs á ný.

Norður-Kóreumenn taka til eftir Maysak

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Un fyrirskipar um 12 þúsund háttsettum félögum Verkamannaflokksins að leggja hönd á plóg við uppbyggingu tveggja svæða sem urðu sérstaklega illa úti þegar fellibylurinn Maysak gekk yfir.

Samkvæmt því sem segir í opinbera dagblaðinu Rodong Sinmun getur Kim ekki hugsað sér að nokkur verði heimilislaus 10. október næstkomandi. Þá verður þess verður minnst að 75 ár eru liðin frá stofnun Verkamannaflokks Norður-Kóreu.