Markasúpa í efstu deild kvenna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Markasúpa í efstu deild kvenna

06.09.2020 - 19:05
Fjórum leikjum er lokið í efstu deild kvenna í fótbolta í dag. Alls voru skoruð 21 mark í leikjunum. Selfoss missteig sig illa á heimavelli og FH vann gríðarlega mikilvægan sigur í fallbaráttuslagnum.

Á Selfossi tóku heimakonur á móti Stjörnunni en fyrir leikinn hafði Selfoss sigrað síðustu þrjá leiki sína, þar á meðal Breiðablik á útivelli og Val í bikarnum. Leikurinn byrjaði skelfilega fyrir heimaliðið en Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins um 20 sekúndur. Shameeka Fishley átti fínt skot úr erfiðu færi sem Kaylan varði út í teig en þar var Betsy Hassett mætt og hún átti ekki í vandræðum með að skora. Aníta Ýr Þorvaldsdóttir bætti svo öðru marki Stjörnunnar við strax á 10. mínútu og útlitið því ansi dökkt á Selfossi. Heimakonur náðu að klóra í bakkann á 36. mínútu með marki frá Barbáru Sól en aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Shameeka Fishley þriðja mark Stjörnunnar. Helena Hekla Hlynsdóttir skoraði svo sárabótamark fyrir Selfoss í uppbótartíma og Stjarnan fer því með öll þrjú stigin heim úr rokinu og rigningunni á Selfossi. 

Þór/KA sogast að botninum

Í Árbænum tók Fylkir á móti Þór/KA og þar skoraði Margrét Árnadóttir fyrsta markið fyrir gestina. Um miðbik fyrri hálfleiks jafnaði Fylkir með glæsilegu marki frá Evu Rut Ásþórsdóttur. Á 50. mín urðu Norðankonur fyrir áfalli þegar að markaskorari þeirra, Margrét Árnadóttir, fékk rautt spjald eftir að hún gaf Cecilíu Rán olnbogaskot. Á 62. mín nýttu Fylkiskonur sér liðsmuninn og Þórdís Elva Ágústsdóttir kom þeim yfir. Næstu mínútur voru afar fjörlegar en fimm mínútum eftir mark Fylkis náði Þór/KA að jafna með marki frá Huldu Björg Hannesdóttur, markið var nokkuð skrautlegt en Hulda tók aukaspyrnu af löngu færi, Cecilía ætlaði að reyna að ná boltanum en hann lak í markið. Leikmenn Fylkis voru ekki sáttar og vildu meina að brotið hefði verið á Cecilíu. Leikurinn var þó ekki jafn lengi því á 69. mínútu náði Fylkir aftur forystunni og nú var það Bryndís Arna Níelsdóttir sem skoraði. Lokamark leiksins kom svo á 77. mínútu þegar að Bryndís Arna skoraði sitt annað mark og tryggði Fylki 4 - 2 sigur. Með sigrinum fer Fylkir í annað sæti deildarinnar en Þór/KA er komið hættulega nálægt botninum. 

Valskonar halda toppsætinu

Valskonur ætluðu að bæta upp fyrir vonbrigðinn á fimmtudaginn þegar að liðið datt úr leik í bikarnum eftir tap gegn Selfoss. Þær mættu ÍBV á heimavelli sínum í dag og var sigurinn aldrei í hættu. Gunnhildur Yrsa kom Val yfir á 10. mínútu með sínu fyrsta marki á Íslandsmóti í átta ár. Valskonur tvöfölduðu forystu sína um miðbik hálfleiksins þegar að ÍBV skoraði sjálfsmark. Gunnhildur Yrsa skoraði sitt annað mark skömmu fyrir hálfleik og Arna Eiríksdóttir innsiglaði 4 - 0 sigur Vals með marki á 82. mínútu. Valur er því aftur komið á topp deildarinnar, en liðið hefur leikið tveimur leikjum meira en Breiðablik sem er í öðru sæti. 

FH af botninum

Það var svo sannkallaður fallbaráttuslagur í Hafnarfirði þar sem FH tók á móti KR en liðin sátu í fallsætunum fyrir leikinn. Leikurinn fór rólega af stað en FH-ingar náðu svo yfirhöndinni og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Það fyrra gerði Phoenetia Maiya Lureen Brown og hún lagði svo upp annað mark FH sem Helena Ósk Hálfdánardóttir skoraði. KR-ingar komu ögn sterkari til baka í seinni hálfleik og minnkuðu muninn á 62. mínútu með marki frá Ingunni Haraldsdóttur. Fimm mínútum síðar náði FH aftur tveggja marka forystu með marki frá Madison Santana Gonzalez eftir varnarmistök hjá KR-ingum sem höfðu fram að þessu sótt án afleits til að freista þess að jafna leikinn. KR-ingar komust þó aftur inn í leikinn aðeins þremur mínútum síðar þegar að Guðmunda Brynja Ólafsdóttir átti frábæra stungusendingu á Ölmu Mathiesen sem skoraði. Það var svo Andrea Mist Pálsdóttir sem gulltryggði 4-2 sigur FH með marki sjö mínútum fyrir leikslok. Með sigrinum færist FH í níunda sæti deildarinnar og skilur KR eftir á botninum.