Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Manni bjargað úr sjónum við Hörpu

Tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík, Harpa.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Manni var bjargað úr sjónum við Hörpu á ellefta tímanum í kvöld. Tilkynning um atvikið barst rétt fyrir tíu.

Maðurinn var meðvitundarlaus á floti uppi við grjótgarðinn við tónlistarhúsið Hörpu. Allt útlit er fyrir að um slys hafi verið að ræða að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Aðeins liðu um fimmtán mínútur frá því tilkynnt var um slysið þar til tíu til tólf lögreglu- og slökkviliðsmenn ásamt körfubíl, slökkvi- og sjúkrabíl voru komin að Hörpu. Manninum var haldið upp úr sjónum uns hann var hífður á land í körfu.

Að sögn lögreglu mun maðurinn hafa verið orðinn nokkuð kaldur eftir volkið. Hann var kominn til meðvitundar og fluttur í skyndingu á sjúkrahús. Frekari upplýsingar um líðan mannsins liggja ekki fyrir á þessari stundu. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV