Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leitarstöðin óstarfhæf vegna „órökstuddra fullyrðinga“

06.09.2020 - 16:51
Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Illt blóð er hlaupið í deilu Krabbameinsfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands. Í nýrri tilkynningu félagsins segir að Leitarstöðin sé óstarfhæf vegna ummæla sem fulltrúi Sjúkratrygginga í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga lét falla í Kastljósi í vikunni. Komi fram gögn sem staðfesti ummælin verði ekki hjá því komist að loka starfsemi Leitarstöðvarinnar umsvifalaust.

Tryggvi Björn Stefánsson, krabbameinsskurðlæknir, sagði í Kastljósi í vikunni að hann hefði fengið upplýsingar um að gæðaeftirlit og gæðaskráning væri í algjörum molum. 

Þetta segir Krabbameinsfélagið vera alvarlegar fullyrðingar og órökstuddar. Starfsmenn Leitarstöðvarinnar telji sig ekki geta sinnt sínu starfi á meðan þeim hafi ekki svarað af hálfu SJúkratrygginga. „Hvorki starfsfólki Krabbameinsfélagsins né Leitarstöðvarinnar [var] kunnugt um að efasemdir væru af hálfu Sjúkratrygginga eða ráðuneytisins um getu félagsins til að sinna þeim verkefnum sem því voru falin með þjónustusamningnum.“

Félagið skorar á Sjúkratryggingar að afhenda gögnin sem ummælin byggist á. Staðfesti þau ummæli Tryggva Björns verði ekki komist hjá því að loka starfseminni umsvifalaust. „Geti Sjúkratryggingar ekki afhent gögnin á þessum tímapunkti, lítur Krabbameinsfélagið svo á að þau séu ekki til og að ummæli fulltrúa Sjúkratrygginga um starfsemi félagsins séu staðlausir stafir.“

Sjúkratryggingar fá frest til hádegis á morgun, mánudag.

Fram hefur komið í fréttum að mistök voru gerð við greiningu sýna hjá Leitarstöðinni. Ákveðið var að endurskoða sex þúsund sýni og af þeim 1800 sem þegar hafa verið skoðuð hafa 45 konur verið kallaðar inn í frekari skoðun. Ein kona er nú með ólæknandi krabbamein eftir mistökin.