Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fundað um framtíðarskipan mála í Malí

06.09.2020 - 00:26
epa08648606 Delegates attend the opening of the national consultations in Mali on the management of the transition in Bamako, Mali, 05 September 2020. Mali President Ibrahim Boubakar Keita resigned 19 August 2020 after a coup by the military on 18 August 2020 with the National Committee for the Salvation of the People (CNSP) now in control trying to work with other organisations to plot a way forward.  EPA-EFE/LIFE TIEMOKO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
IIbrahim Boubakar Keita fyrrverandi forseti Malí yfirgaf landið í dag. Jafnframt hófst fjölmenn ráðstefna um framtíðarskipan mála í landinu.

Keita, sem er 75 ára, hélt til Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í þeim tilgangi að leita sér lækninga. Hann var lagður inn á sjúkrahús í höfuðborginni Bamako á þriðjudag tæpri viku eftir að herforingjastjórnin lét hann lausan.

Að sögn Mamadou Camara fyrrverandi starfsmannastjóra forsetans var flutningur hans til Abu Dhabi að undirlagi herforingjanna sem nú ráða ríkjum í Malí.

Samtök Vestur-Afríkuríkja krefjast kosninga fljótlega

Leiðtogar Samtaka Vestur-Afríkuríkja hafa fallið frá kröfu sinni um að Keita snúi aftur í forsetastól Malí. Á hinn bóginn krefjast þeir þess að almennar kosningar fari fram í landinu innan árs. Herforingjastjórnin hefur ekki fallist á þær kröfur.

Leiðtogarnir eru jafnframt uggandi yfir því fordæmi sem valdaránið í Malí 18. ágúst gæti sett. Grafið gæti undan völdum þeirra og baráttunni gegn herskáum íslamistum á svæðinu.

Samráðsfundur hófst í dag

Samráðsfundur eða ráðstefna varðandi umbreytingu til borgaralegrar stjórnar hófst í Malí í dag þar sem hundruð úr röðum herstjórnarinnar, stjórnmálaflokka og fjölmargra félagasamtaka komu saman.

Fulltrúar 5. júní hreyfingarinnar (M5-RFP) gerðu aðsúg að fundarstjóra þegar um klukkustund var liðin af fundinum með þeim orðum að þeim væri haldið utan allra vinnuhópa ráðstefnunnar.

Eftir nokkuð hlé var tilkynnt að einhver úr M5-RFP sæti í hverri nefnd og þannig hélt ráðstefnan áfram. Henni verður fram haldið í dag og aftur í lok næstu viku.