Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einlægt alþýðupopp

Mynd með færslu
 Mynd: Summi Hvanndal

Einlægt alþýðupopp

06.09.2020 - 14:10

Höfundar

Ljósastaurar lífsins er fyrsta sólóplata Summa Hvanndal og innihaldið alþýðupopp eins og það kemur af kúnni, en gripurinn er plata vikunnar á Rás 2.

Ég hef oft rætt um það í ræðu og riti að það má nánast tala um sérstakan undirflokk í tónlist hérlendis þegar kemur að plötum eins og þessum. Og á þetta við um fleiri lönd náttúrulega. Söngvaskálda/einyrkjaverk sem eru framreidd af hressandi heilindum, menn (langmest karlmenn) sem setja í plötu vegna innri þarfar og lítils annars. Svona plötur koma reglubundið út, sem betur fer, og ég hef legið í þessu allar götur síðan ég byrjaði að skrifa um tónlist faglega. Það sem hefur alltaf höfðað til mín fyrst og síðast – ofar eiginlegu innihaldi – er hversu sannferðugt þetta er oftast nær. Það er einhver hreinleiki sem ég kann að meta.

Summi (Sumarliði Helgason) er líkast til þekktastur fyrir störf sín í Hvanndalsbræðrum og Lost en að þessari plötu koma auk Summa þeir Haukur Pálmason sem sá um upptökur, hljóðblöndun og slagverk og Pétur Steinar Hallgrímsson sem sá um strengjahljóðfæri ásamt upptökum. Platan er þá tekin upp á heimaslóðum, sem er norðurlandið, og meðal annars í menningarhúsinu Hofi.

Ég viðurkenni að bæði umslag og titill settu mann í varnargír (hér mætti koma broskall). Mögulega er Summi líka með tungu uppi við tönn í þessum efnum, a.m.k. er titillinn Ljósastaurar lífsins eitthvað svo ... tja ... fyndinn. Innihaldið er hins í góðu lagi og vel það meira að segja. Heiðarleg, þriggja gripa lög oftast nær en vel útsett og spiluð og klæðningin öll til fyrirmyndar. Það er líka sæmileg fjölbreytni í gangi. „Tindrandi“, sem opnar plötuna, er falleg ballaða og sæmilega hugrakkt að byrja svona. „Gróður hugans“ er hins vegar hressilegt lag í anda OMAM. Titillag plötunnar er því næst, hefðbundnara, einslags óður til lífsförunauts eður heimaslóða.

Söngrödd Summa er ekki sérstaklega sterk, hrein og bein einhvern veginn í hljómfallinu og ekkert um krúsídúllur en hann beitir henni hins vegar af ástríðu og tilfinningahita og það smýgur í gegn (þetta lag er ágætt dæmi þar um). Platan sveiflast svo fram og til baka á þessum skala, hressileg lög af rokkkyni („Dagar“) og svo ljúflingsstemmur („Allt sem horfið er“). „Hugsanir“ rúllar t.d. um í OMAM-heimi, nett nýbylgja í gangi og yfir heiðarleg söngröddin syngjandi smellinn og pælingavænan texta. Maður hlustar. En lögin eru eðlilega misgóð, endað er á „Hjartað mitt er þitt ef þú vilt“, hallærisrokkari sem vel hefði mátt sleppa. Heilt yfir kemst Summi þó vel frá þessu. Uppsöfnuð reynsla spilar án efa inn í og það er lítill nýliðabragur á þessu, þó að þetta sé fyrsta sólólplatan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Einlægt og ágengt