Bókasafnið er hógvært, útópískt og anarkískt

Mynd: Wikimedia Commons / .

Bókasafnið er hógvært, útópískt og anarkískt

06.09.2020 - 15:45

Höfundar

„En umfram allt, farið á bókasafnið, það er nefnilega ykkar eign,“ segir Þorvaldur S. Helgason í þriðja pistli af fjórum um hinar ýmsu tegundir lesturs.

Þorvaldur S. Helgason skrifar:

„Að degi til er bókasafnið ríki skipulagsins. Ég ferðast niður og í gegnum lærða gangana með augljósum ásetningi, í leit að nafni eða rödd, kalla bækurnar á minn fund í samræmi við röð þeirra og reglu. Fyrirkomulag staðarins er augljóst: völundarhús beinna lína, ekki til að týnast í heldur til að finna; aðgreint herbergi sem fylgir því sem virðist vera rökræn framvinda; landafræði er heyrir undir fyrirframákveðið efnisyfirlit og auðþekkjanlegt stigveldi stafrófs og tölustafa. En að nóttu til breytist andrúmsloftið. Hljóðin dempast og hugsanirnar verða háværari. „Ugla Mínervu hefur sig aðeins til flugs þegar rökkva tekur.“ Eða svo hafði Walter Benjamin eftir Hegel. Tíminn virðist nálgast augnablikið mitt á milli svefns og vöku þegar hægt er að endurhugsa heiminn án nokkurrar áhyggju.“ 

Svo lýsir argentínski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Alberto Manguel sínu persónulega bókasafni í The Library at Night, bók sem er að hluta til minningabók, að hluta fræðirit og að hluta eins konar ástarjátning til bókasafna. Kæru lesendur, í síðasta pistli fjallaði ég um þá gerð lesturs sem við stundum með eyrunum, það þegar við hlustum á texta fremur en að lesa hann af blaði. Við komumst að því að það að hlusta á hljóðbækur er alveg jafn réttmæt lestraraðferð eins og sú að lesa bækur á prenti og við komumst jafnframt að því að þessar tvær aðferðir hafa verið stundaðar til jafns við hvor aðra svo lengi sem elstu menn muna. Í þessum þriðja pistli mínum um ólíkar birtingarmyndir lesturs langar mig hins vegar að fjalla um stofnun sem er sennilega helsti málsvari og verndari lesturs í okkar samfélagi, það er að segja bókasafnið.

Safn á stærð við alheiminn

Sjálfur hef ég alla tíð verið heillaður af bókasöfnum, og gildir þá einu hvort þau eru til í hinum efnislega heimi eða hvort þau eru aðeins til í heimi skáldskaparins. Ég man vel eftir augnablikinu þegar ég sem krakki hætti mér loks út fyrir kunnuglegar hillurnar í barnabókadeild bókasafnsins í Grafarvogi, sem ég var löngu búinn að þurrausa, og tók mín fyrstu, hikandi skref yfir á ókunnar lendur fullorðinsbókanna. Að sama skapi líður mér eins og það hafi verið í gær þegar ég sem tónlistarþyrstur menntaskólanemi fyrir daga Spotify nældi mér í heilu staflana af geisladiskum í tónlistardeild Borgarbókasafns í Grófinni sem ég hlustaði svo samviskusamlega á einn af öðrum, hvort sem mér líkaði þeir betur eða verr.

Af þeim skálduðu bókasöfnum sem hafa fangað athygli mína má til dæmis nefna Kirkjugarð hinna gleymdu bóka úr Skugga vindsins eftir Carlos Ruiz Zafon, leynibókasafnið í hjarta Barcelona sem er síðasti dvalarstaðar bóka sem hafa gleymst eða verið útskúfaðar úr samfélaginu. Bókasafnið í Babel úr samnefndri smásögu Jorge Luis Borges, safnið sem er á stærð við alheim og inniheldur allar mögulegar uppraðanir stafrófsins og þar af leiðandi allar bækur sem mögulega er hægt að skrifa. Eða draumabókasafnið úr Sandman myndasögunum eftir Neil Gaiman, safn sem inniheldur allar bækur sem mannkynið hefur nokkurn tíma dreymt um að skrifa en voru aldrei færðar á blað.

Þarna má líka nefna bókasafnið sem er eins konar erkitýpa allra bókasafna og liggur einhvers staðar mitt á milli raunveruleikans og skáldskaparins, Bókasafnið í Alexandríu. Safnið sem sagan segir að hafi innihaldið allar bækur og alla þekkingu fornaldar en mætti sínum harmrænu örlögum þegar það brann til kaldra kola einhvern tíma við upphaf okkar tímatals. Kæru lesendur, þið verðið að afsaka mig, ég kemst bara á svo mikið flug þegar ég tala um bókasöfn af því þau eru svo mikilvæg. Bókasöfn gegna fjölmörgum hlutverkum í okkar samfélagi og fer það auðvitað eftir eðli og gerð safnsins hvert hlutverkið er. Það gefur til dæmis auga leið að Landsbókasafn Íslands gegnir öðru hlutverki en skólabókasafn grunnskólans á Drangsnesi. Bókasöfn eiga stóran þátt í að vernda bókmennta- og menningararf okkar Íslendinga rétt eins og Landsbókasafn gerir.

Allar bækur afritaðar

Eitt af meginhlutverkum þess er einmitt að safna saman öllum gögnum sem gefin eru út hér á landi, þar með talið bókum, geisladiskum, kvikmyndum, tímaritum og jafnvel auglýsingabæklingum en útgefendur eru raunar skyldugir til að afhenda Landsbókasafni eintök af öllum sínum útgáfum. Þessi söfnun er auðvitað gríðarlega mikilvæg í sögulegu og fræðilegu samhengi og ekki laust við að hún veki hugrenningatengsl við Bókasafnið í Alexandríu en faraóinn Ptólemajos þriðji er sagður hafa sett þau lög að allar bækur sem komið var með inn í Alexandríu skyldu afhentar safninu til afritunar. Leitað var í öllum þeim skipum er lögðust til hafnar og ef einhverjar bækur fundust voru þær umsvifalaust teknar og farið með þær í bókasafnið.

Afritunum var svo skilað til eigendanna en upprunalegu eintökunum var haldið eftir í safninu þar sem þær voru auðkenndar með merkingunni „frá skipunum“. Ég tel nú frekar ólíklegt að starfsmenn Þjóðarbókhlöðunnar sitji fyrir skipum er leggjast að í Reykjavíkurhöfn en hvet þó alla skipverja til að hafa varann á og halda fast í bækur sínar. Bókasöfn gegna jafnframt öðru hlutverki sem er jafnvel enn mikilvægara, það er að miðla læsi og veita almenningi aðgang að ómetanlegri þekkingu. Þetta hlutverk er skýrt tekið fram í svokölluðum bókasafnalögum sem Alþingi samþykkti í desember 2012:

„Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi. Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu.“

Söfnin laga sig að samfélaginu 

Setningin sem grípur mig einna mest í þessari klausu er sú að bókasöfn eigi að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Við eigum nefnilega öll að hafa aðgang að þessum hlutum óháð stétt okkar, stöðu eða líkamlegri getu. Þarna gegnir bókasafn eins og Hljóðbókasafn Íslands mjög mikilvægu hlutverki með því að veita þeim einstaklingum er ekki geta nýtt sér prentað letur, hvort sem það er vegna fötlunar, lesblindu eða annarra ástæðna, aðgang að hljóðbókum. En bókasöfn eru auðvitað ekki óhagganlegar og eilífar stofnanir, þó þau þykist stundum vera það, og á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil endurhugsun á starfsemi og hlutverki þeirra, hér á landi jafnt sem erlendis.

Bókasöfn þurfa jú að geta lagað að sig að breyttri samfélagsgerð og breyttum tíðaranda. Margir sem eru á mínum aldri og eldri eiga ef til vill blendnar æskuminningar um bókasöfn sem alvörugefin musteri þagnarinnar þar sem strangir bókaverðir sussuðu á börn og fullorðna ef þeir gáfu frá sér hið minnsta hljóð. Bókasöfn voru eitt sinn þrúgandi stofnanir sem tóku sig mjög alvarlega og sum söfn eru það jafnvel enn, þó þetta sé óðum að breytast. Borgarbókasöfnin í Reykjavík eru til dæmis farin að leggja ríka áherslu á viðburðahald og samfélagslega þátttöku. Öll Borgarbókasöfn eru nú skilgreind sem menningarhús þar sem reglulega fara fram ýmsir viðburðir svo sem tónleikar, námskeið, upplestrar, vinnusmiðjur og fyrirlestrar. Bókasöfn nútímans eru lifandi og gagnvirkar einingar, eða eins og segir á heimasíðu Borgarbókasafnsins: „Bókasafnið er staður fyrir einstaklinga að mæla sér mót og hópa að koma saman.“  Ég hitti Sunnu Björk Þórarinsdóttur, bókasafnsfræðing sem vinnur í Borgarbókasafni í Grófinni og spurði hana um þessar breytingar sem nú eiga sér stað á skipulagi og hlutverki bókasafna.

„Bókasöfn um allan heim eru að breytast, þau eru að breytast að því leytinu til að fólk þarf að sækja annars konar þekkingu, ekki bara upp úr bókum,“ segir Sunna.  Söfnin séu nú vettvangur fyrir fólk til þess að hittast annars staðar en heima hjá sér, barnafjölskyldur koma og börnin leika meðan foreldrar kannski spjalla saman eða glugga í tímarit. „Og bókasöfnin eru staður þar sem það er eiginlega bara skylda manns að tjúna sig niður. Þú labbar inn og þetta er bara musteri þar sem hér er ég ekki að flýta mér. Hér ætla ég að gefa mér tíma, ég ætla að skoða í hillurnar.“

Þarf ekki að draga upp veskið

Ég minntist á það við Sunnu að almenningsbókasöfn væru eiginlega eini staðurinn sem er eftir í okkar nútímasamfélagi þar sem allir eru velkomnir og geta staldrað þar við eins lengi og þeim sýnist án þess að kaupa sér neitt. Bókasöfn eru mögulega eina almenningsrýmið sem er ekki utandyra sem kapítalisminn hefur enn ekki náð að leggja undir sig. Bókasöfn eru í rauninni mjög róttækt afl í samfélaginu sem þjónar hagsmunum okkar almennings enda erum það við sem erum eigendur þeirra.

„Þetta er þín eign, þú átt þetta, og það sem þú átt það átt þú ekkert að fara og versla eitthvað í,“ segir Sunna. Á bókasöfnum eigi ekki að þurfa að draga upp veskið nema í undantekningartilvikum. „Það er akkúrat hugmynd bókasafnanna. Er ekki bara bókasafnið anarkisti, í raun og veru? Eins og anarkisminn náttúrlega er ef hann á að virka í praxís, almennilega. Og útópía, bókasafnið er útópía, bókasafnið er anarkisti. Það er ekki hægt annað en að elska það og sérstaklega einmitt þessar breytingar.“

Undir lok spjallsins endurtók Sunna orð sín og sagði „Bókasafnið er hógvært, útópískt og anarkískt. Þetta er ótrúleg fegurð í samfélaginu.“ Þessu er ég hjartanlega sammála og því vil ég undirstrika mikilvægi þess að við sem erum eigendur þessarar stofnunar gerum okkar allra besta til að rækta hana og hlúa að henni. Mig langar því að hvetja ykkur öll, kæru lesendur, til að fara á ykkar uppáhalds bókasafn á næstu dögum. Farið þangað og staldrið þar við. Ráfið um gangana og týnið ykkur í völundarhúsi þekkingarinnar. Grípið ljóðabók, blaðið í gömlum teiknimyndasögum, hlustið á vínylplötu. Farið þangað til að læra eða vinna eða til að hitta vini. Kannski viljið þið einfaldlega fara þangað til að slaka á, borða hádegismatinn ykkar eða til að fá frí frá börnunum. En umfram allt, farið á bókasafnið, það er nefnilega ykkar eign. Í næsta og síðasta pistli þessarar seríu, ætla ég að fjalla um lestur í okkar óreiðukennda upplýsingasamfélagi. Hvaða áhrif hefur það á lestur að lifa í heimi þar sem alls konar miðlar og tækni keppast stöðugt um athygli okkar og hvað verður um þennan mikilvæga hæfileika í framtíðinni?

Tengdar fréttir

Pistlar

Lestur á tímum COVID – Að lesa með eyrunum

Pistlar

Lestur á tímum COVID – virkjun ímyndunaraflsins

Bókmenntir

Kreppan bjargaði bókabúðum

Menntamál

Landsmenn hvattir til að setja heimsmet í lestri