Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Var tilkynntur til lögreglu vegna gruns um annað mál

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - rúv
Tæplega fimmtugur karlmaður, sem nýverið var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri konu í starfi sínu í skammtímavistun á Holtavegi, var tilkynntur til lögreglu vegna gruns um annað brot á sama stað. Málið var látið niður falla. Borgin harmar málið og hefur breytt verkferlum.

Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að maðurinn hefði verið sakfelldur í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að brjóta kynferðislega gegn þroskahamlaðri konu í starfi sínu á Holtavegi 27, sem er skammtímavistun fyrir fatlaða hjá borginni. Í dóminum segir að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína og skipað henni að fara í sturtu og þvegið henni víðs vegar um líkamann, meðal annars um brjóst og kynfæri. Fyrir liggur að konan hefur aldrei þuft aðstoð við að baða sig. 

Sjá einnig: Ánægð með að hafa verið trúað

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, sem heldur utan um skammtímavistanir á vegum borgarinnar, segir að allir aðstandendur þeirra sem dvöldu á Holtavegi á þeim tíma sem grunur vaknaði um brot hafi verið upplýstir um málið, og þeir hvattir til að hafa samband við lögreglu ef þeir hefðu minnsta grun um að eitthvað hefði komið fyrir þeirra barn eða ungmenni í vistuninni.

Ingibjörg segir að foreldri annars einstaklings sem sótti skammtímavistunina hafi verið með vangaveltur varðandi háttsemi starfsmannsins. Sá grunur var tilkynntur til lögreglu á svipuðum tíma og málið sem hann hlaut dóm fyrir. Málið var fellt niður. 

Sjá einnig: Verkferlum breytt eftir að kynferðisbrot í skammtímavistun

Segir Ingibjörg að breytingar hafi verið gerðar á verkferlum skammtímavistunarúrræðum borgarinnar um leið og grunur vaknaði um að maðurinn hefði brotið af sér. Meðal annars hafi verið skerpt á þeirri meginreglu að starfsmaður af sama kyni aðstoði við baðferðir. 

„Stóra breytingin er sú að við höfum verið að breyta öllum verkferlum þannig að það sé aldrei einn í húsi með þeim sem er að nota þjónustuna. Það var sett tvöföld næturvakt inn á allar skammtímadvalir og eins var verklaginu innanhúss breytt bæði hvað varðar hvernig fólk fer úr húsi og hverjir séu þá eftir. Þannig það komi aldrei upp sú staða að það sé einn eftir í húsi. Þannig að við getum reynt að lágmarka eins og við getum að svona komi upp,“ segir hún.