Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Smitsjúkdómalæknir vill afnema nándarmörk í skólum

05.09.2020 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Fella ætti niður eins metra fjarlægðarreglu í framhalds- og háskólum að mati Bryndísar Sigurðardóttur, smitsjúkdómalæknis á Landspítala. Hún telur ávinninginn af því meiri en af núverandi fyrirkomulagi. Það geti valdið vanlíðan og brotthvarfi nemenda.

Allir nemendur í framhalds- og háskólum verða að viðhafa eins metra nándarreglu og því eru fjölmargir í fjarnámi að stórum hluta. Bryndís telur að ef fyrirkomulagið verður með þessum hætti fram eftir önninni þá geti það haft áhrif á andlega heilsu ungmenna því tenglsamyndun og félagslíf skipti miklu máli.

Þá geti fyrirkomulagið orðið til þess að brotthvarf nemenda úr námi aukist. „Ég held að ef maður er að vega og meta ávinning þá held ég að það sé klárlega meiri ávinningur að opna framhaldsskóla og háskóla alveg, fella niður eins meters reglu þar með það í huga að hugsanlega greinast eitt eða tvö smit og við þurfum að ná utan um það eins og okkar rakningarteymi hefur gert mjög vel,“ segir Bryndís í samtali við fréttastofu. 

Telur að kannski hafi unga fólkið dregið stutta stráið

Bryndís bendir á að víða í samfélaginu hafi verið þrýst á stjórnvöld að liðka um hömlur, til dæmis af ferðaþjónustunni og menningarstofnunum. Hún tekur fram að öll þessi starfsemi sé nauðsynlegur hluti af því sem skilgreint sé sem eðlilegt daglegt líf. „En kannski hefur unga fólkið dregið stutta stráið í þessu og ekki hefur heyrst nægilega hátt í nemendum og foreldrum. Ég er undanfarnar vikur búin að tala við mjög marga foreldra og það taka allir undir en enginn kannski segir neitt því við erum að reyna að gera okkar besta og vera þolinmóð haldandi það að þetta sé best fyrir okkar svokallaða veirulausa samfélag.“ Hún segir þó hafa komið skýrt fram að enginn geri ráð fyrir því að samfélagið verði alveg laust við veiruna og að eigi eftir að greinast smit næstu mánuði. 

Bryndís óttast að fjarkennslan eigi eftir að dragast á langinn og að fyrirkomulagið verði ekki endurskoðað á næstu vikum. Hún bendir á að háskólanemar séu sumir hverjir aðeins 18 til 19 ára gamlir og að í fjölmennum fögum í háskólum hafi kennslan öll verið í gegnum netið. „Og þessir krakkar sem kannski þekkja ekki marga, eru að byrja í nýjum skóla eða eru að flytja að utan, þeir hafa ekki enn þá fengið tækifæri til að sjá framan í krakkana sem að þeir eiga að tengjast og vera með næstu árin í þessum fögum,“ segir Bryndís. 

Telur að skoða ætti þann möguleika að nota grímur

Skoða mætti þann möguleika að næstu vikur fái nemendur og kennarar að mæta í alla tíma með andlitsgrímur, sérstaklega í háskólum, að mati læknisins. „Kennararnir gætu hugsanlega viðhaldið þessari eins metra reglu milli sín og nemenda eða milli kennaranna en krakkanir sjálfir fái að sitja úti í sal í kennslustundum,“ stingur hún upp á. Hún telur að flestir séu vel meðvitaðir um sóttvarnir og að því myndi fyrirkomulag sem þetta ganga upp. „Hugsanlega gætu grímur eitthvað hjálpað til á meðan við erum að koma okkur í svolítið eðlilegra ástand.“