Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ökumaður sofnaði undir stýri - farþegi í bílnum lést

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Banaslys sem varð á Reykjanesbrautinni í október fyrir tveimur árum má rekja til þess að ökumaður Peugeot-bíls sofnaði undir stýri og ók yfir rangan vegarhelming. Farþegi sem var í bílnum lést en hann var ekki spenntur í öryggisbelti. Ökumaðurinn hafði vakað alla nóttina.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Skýrslan var birt í vikunni. 

Í henni kemur fram að Peugeot-bílnum hafi verið ekið vestur eftir Reykjanesbraut. Við Tjarnarvelli fór bíllinn yfir á rangan vegarhelming og lenti í hörðum árekstri við Kia-jeppling sem var að koma úr gagnstæðri átt. 

Ökumaður Peugeot-bílsins greindi frá því að hann myndi ekki eftir því að hafa ekið yfir á rangan vegarhelming og að hann hefði vakað alla nóttina. Ökumaður Kia-jepplingsins sagðist ekki hafa haft tíma til að bregðast við aðstæðum. Hann var einn í bílnum og hlaut talsverða áverka. 

Tveir voru í Peugeot-bílnum. Ökumaðurinn var spenntur í öryggisbelti og hlaut hann áverka á hné og brjóstkassa. Farþeginn var ekki spenntur í öryggisbelti, hann kastaðist fram á mælaborðið og hlaut af því banvæna höfuðáverka. „Að mati nefndarinnar hefði farþeginn sennilega lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti,“ segir í skýrslunni.

Rannsóknarnefndin brýnir fyrir farþegum og ökumönnum að nota alltaf öryggisbelti. Þá bendir hún á að  5 af 15 banaslysum á árinu 2018 hafi mátt rekja til þreytu eða svefns.  Allir ættu því að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.

Banaslysið varð til þess að hópur fólks skoðaði að loka Reykjanesbrautinni til að mótmæla seinagangi við tvöföldun.  Hópurinn hafði lengi bent á hversu hættulegur vegurinn væri á þessum kafla.

Rannsóknarnefndin segir í skýrslu sinni að nú standi yfir framkvæmdir þar sem verið sé að tvöfalda veginn og aðgreina akstursáttir. Gert sé ráð fyrir að þeim framkvæmdum ljúki í nóvember á þessu ári. „Rannsóknarnefnd samgönguslysa fagnar þessum framkvæmdum og hvetur stjórnvöld til að flýta aðgreiningu umferðar á þjóðvegum þar sem umferðarþungi er mikill.“