Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mannrán, pyntingar, nauðganir og morð

05.09.2020 - 08:31
Vatni sprautað á mótmælendur í Santiago í gær. - Mynd: EPA-EFE / EFE
Kondórinn er allra ránfugla stærstur og jafnframt heitið á sameiginlegri leyniþjónustu átta einræðisríkja í Suður-Ameríku. Þau sameinuðust um mannrán, pyntingar, nauðganir og morð á mörg hundruð pólitískum andsæðingum þeirra á áttunda og níunda áratugnum.

Daginn eftir fjögurra ára afmælið sá Anatole Larrabeiti foreldra sína í hinsta sinn, 26. september 1976. Faðir hans lá í blóði sínu eftir skotárás og móðirin við hlið hans. Fjögurra ára drengurinn og átján mánaða systir hans voru handtekin í úthverfi höfuðborgarinnar Buenos Aires í Argentínu. Þau voru í varðhaldi í rúman mánuð í Argentínu, síðan flutt til heimalandsins Úrúgvæ sem vinstrisinnaðir foreldrarnir höfðu áður flúið og loks til nágrannaríkisins Síle. Þar var þeim sleppt daginn fyrir jól, úti á miðri götu, eftir þriggja mánaða varðhald í þremur löndum. Þau þekktu engan, vissu ekki í þennan heim né annan, voru vistuð á munaðarleysingjahæli en voru síðar tekin í fóstur. Á fullorðinsaldri komust þau i samband við fjölskyldu sína og hafa barist fyrir réttlæti æ síðan. Sú barátta virðist loks vera að skila einhverjum árangri. 

Stærstur allra ránfugla

Larrabeiti segir í Guardian að hann vilji að heimsbyggðin viti af þessu hryðjuverkaneti sem gekk undir nafninu Kondór sem er allra ránfugla stærstur. Leyniþjónustunet átta herforingjastjórna í Suður-Ameríku, Argentínu, Síle, Úrúgvæ, Bólivíu, Paragvæ, Brasilíu, Perú og Ekvador. Ríkin gátu óhindrað sent dauðasveitir landa á milli til að ræna, pynta og myrða pólitíska andstæðinga sem höfðu flúið ofsóknir í heimalandinu. Leyniþjónustunetið Kondór var háþróuð aðferð einræðisherranna til ofsókna gegn þeim tugþúsundum sem voru drepin í Suður-Ameríku á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. 

Vesturveldin vissu af ofsóknunum

Örlög Larrabeiti hafa verið rifjuð upp í tugum réttarhalda víðs vegar um heiminn á síðustu tveimur áratugum. Fyrstu réttarhöldin hófust í Róm fyrir tuttugu árum og þeim er enn ekki lokið. Í fyrra var fyrrum forseti Perú, utanríkisráðherra Úrúgvæ, yfirmaður leyniþjónstu Síle og tuttugu og einn til viðbótar dæmdur í lífstíðarfangelsi. Þeir áfrýjuðu allir og niðurstöðu er að vænta á næsta ári. Myndin hefur verið að skýrast á síðustu árum, ekki síst eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti ákvað að létta leynd af gríðarlegu skjalamagni. Þau sýna hve mikið Bandaríkin og önnur vesturveldi vissu um þessar skipulögðu ofsóknir. Herforingjarnir héldu sínum ódæðisverkum áfram óáreittir. Bandaríkin dældu til einræðisríkjanna peningum og hernaðaraðstoð. Pyntingameistararnir fengu margir þjálfun í þjálfunarbúðum Bandaríkjahers í Panama.

Augusto Pinochet handtekinn í Lundúnum 

Leyniþjónustunetið Kondór var fyrst nefnt opinberlega í málsókn spænska dómarans Baltasars Garzón undir lok tíunda áratugarins. Augusto Pinochet var handtekinn í Lundúnum árið 1998. Hann var í haldi í sautján mánuði, framsal til Spánar var samþykkt í tvígang en hann var á endanum sendur heim til Síle af heilsufarsástæðum. Pinochet lét alltaf mynda sig illa haldinn í hjólastól en þegar hann lenti í heimalandinu stóð hann upp úr hjólastólnum og veifaði stuðningsmönnum sínum. Málið vakti heimsathygli og skriður komst á málarekstur víða um heim. 

Pyntingar, nauðganir og morð

Herforingjastjórnirnar höfðu lengi unnið náið saman en leyniþjónustunetið Kondór var formlega stofnað í nóvember árið 1975. Pinochet og og yfirmaður leyniþjónustu hans í Síle, Manuel Contreras buðu fimmtíu leyniþjónstumönnum frá Suður-Ameríku á stofnfund Kondórs. Netið náði yfir fjóra fimmtu hluta álfunnar og tíu prósent landsvæðis í heiminum öllum. Umsvifin voru mest í Argentínu en þangað höfðu margir stjórnarandstæðingar flúið undan ofsóknum í heimalandinu. Í öllum löndunum voru pyntingastöðvar og fangelsi af öllum toga. Líkum fórnarlamba var yfirleitt kastað í sjóinn og aðstandendur vissu yfirleitt ekkert um örlög ástvina. Lýsingar á meðferðinni, pyntingunum, nauðgunum og morðum eru með ólíkindum. 

Fylgdust grant með grimmdarverkunum

Washington Post greindi frá því á dögunum að svissneskt fyrirtæki sem sá mörgum helstu leyniþjónstum heims fyrir njósnatækjum ýmiss konar og dulmálsvélum hafi í raun verið í eigu leyniþjónustu Bandaríkjanna og Vestur-Þýskalands. Tækin voru hönnuð þannig að leyniþjónustur Bandaríkjann og Vestur-Þýskalands gátu fylgst með öllum samskiptum, meðal annars samskiptum leyniþjónustunetsins Kondórs. Í Washington Post segir að leyniþjónustan CIA hafi útvegað helstu einræðisríkjum Suður-Ameríku fjarskiptabúnað og gat því fylgst náið með grimmdarverkum þeirra. Sendinefnd frá leyniþjónustum Vestur-Þýskalands, Bretlands og Frakklands fór til Argentínu árið 1977 til að kynna sér samstarfið í Kondór. Á þeim tíma var baráttan gegn Baader-Meinhof í Þýskalandi, Rauðu herdeildunum á Ítalíu og Írska lýðveldishernum í algleymi. Löndin vildu samhæfa aðgerðir og litu til Suður-Ameríku sem fyrirmyndar.

Böðlarnir ekki lengur óhultir

Herforingjastjórnirnar hrundu ein af annarri á níunda áratugnum en böðlarnir fengu að mestu að vera óáreittir. Yfirleitt fengu þeir sakaruppgjöf eða voru náðaðir og oft vildu menn ekki rugga bátnum af ótta við að herinn tæki völdin að nýju. Flest benti til þess að þessi svívirðulegu glæpir yrðu refsilausir með öllu. Landslagið gjörbreyttist með handtöku Pinochets rétt fyrir aldamótin. Sakaruppgjöf og náðanir ná ekki til grimmdarverka gegn börnum og heldur ekki yfir voðaverk í öðrum löndum. Þá losuðu menn sig iðulega við lík fórnarlambanna og slík mál fyrnast ekki. Réttarhöldin hafa því haldið áfram og óhugnaðurinn hefur smám saman komið betur í ljós. Böðlarnir eru ekki lengur óhultir og eru nú dæmdir einn af öðrum.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV