Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fær ekki að streyma frá dauða sínum á Facebook

05.09.2020 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Facebook hefur lokað fyrir beint streymi af Facebook síðu Frakkans Alain Cocq, sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi. Hann á stutt eftir ólifað og hugðist senda út frá síðustu dögum lífsins í beinu streymi á samfélagsmiðlinum. Það vill hann gera til að vekja athygli á því að dánaraðstoð sé ekki leyfð í Frakklandi.

Cocq er 57 ára og sendi forseta Frakklands, Emmanuel Macron, bréf á dögunum þar sem hann bað um liðsinni við að fá leyfi til dánaraðstoðar. „Þar sem ég er ekki hafinn yfir lög, get ég ekki orðið við beiðni þinni,“ svaraði Macron í bréfi sem Cocq birti á Facebook-síðu sinni. 

Eftir þessa niðurstöðu ákvað Cocq að hætta að borða, drekka og að taka lyf. Í frétt AFP af málinu segir að hann hafi búist við að deyja eftir fjóra til fimm daga og að hann hafi ætlað að senda út streymi af síðustu dögum lífs síns. 

Gagnrýni hefur í gegnum tíðina beinst að Facebook, ýmist fyrir of strangar eða of veikar reglur. Tilkynnt var í morgun að búið væri að loka fyrir beint streymi af Facebook-síðu Cocq. AFP hefur eftir talsmanni Facebook að þó að þau virði ákvörðun hans að vekja athygli á þessu flókna máli, þá hafi sú ákvörðun verið tekin, eftir ráðleggingar frá sérfræðingum, að loka fyrir beint streymi af Facebook-síðu hans.

„Ferðin til frelsunar er hafin og trúið mér, ég er hamingjusamur,“ sagði Cocq í færslu á Facebook í morgun. Hann dvelur á heimili sínu í Dijon. Hann kvaðst hafa borðað sína síðustu kvöldmáltíð. „Ég veit að næstu dagar verða erfiðir en ég tók þessa ákvörðun og er rólegur.“