Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Drepin vegna starfa sinna

05.09.2020 - 07:30
Mynd: RÚV/Grafík / RÚV/Grafík
Í vikunni hófust í París réttarhöld yfir mönnum sem sakaðir eru um aðild að skotárás á ritstjórnarskrifstofu franska blaðsins Charlie Hebdo fyrir fimm árum. Þau ellefu sem voru myrt í vinnunni þennan janúardag í París eru ekki einu blaðamennirnir sem ekki fá að snúa aftur heim eftir vinnu. Bara í ár hafa 17 fréttamenn látist vegna vinnu sinnar, meirihluti þeirra var myrtur.

Enginn talar um missinn okkar, okkar fjölskyldunnar og allra vina hennar víða um heim. Öllum virðist vera sama um allar greinarnar sem aldrei verða skrifaðar, um allar raddirnar sem fá aldrei að heyrast. Enginn talar um manneskjuna Kim, blaðamanninn sem var einfaldlega að vinna vinnuna sína. Sem sneri aldrei heim eftir verkefni sem átti bara að vera hefðbundið.

Textinn hér að ofan er frásögn Ingrid Wall. Frásögn hennar og mannsins hennar, Joachim Wall, í þýðingu fréttamanns. Þarna lýsa þau tilfinningum sínum á meðan þau fylgdust með réttarhöldunum yfir Peter Madsen, manninum sem myrti dóttur þeirra, Kim Wall, árið 2017. Frásögn þeirra kom út í sumar, í bókinni Boken om Kim Wall: När orden tar slut, Bókin um Kim Wall, röddin sem búið er að þagga niður í.  

Í pistlinum, sem hlýða má á í spilaranum hér að ofan, hljómar lagið Sång til Friheden, eða Óður til frelsisins. Lagið er kúbanskt en textann á Svíinn Björn Afzelius. Lagið var í miklu uppáhaldi hjá Kim Wall og var leikið við minningarathafnir henni til heiðurs. 

Kom aldrei heim úr vinnunni

Sögu Kim Wall þekkja flest. Sænska blaðakonunnar sem lýst var eftir í ágúst árið 2017. Kim Wall hafði viku fyrr farið um borð í kafbátinn Nautilus ásamt danska uppfinningamanninum Peter Madsen, manni sem hún hafði lengi viljað taka viðtal við um uppfinningar hans og framtíðaráform í þeim efnum. 

epa06140357 (FILE) Swedish journalist Kim Wall poses for a picture in Sweden on 28 December 2015 (issued 12 August 2017). Swedish journalist Kim Wall was onboard a private submarine 'UC3 Nautilus' owned by Peter Madsen. The submarine sank on 11
 Mynd: EPA - TT
Kim Wall.

Í fyrrnefndri bók segir að Madsen hafi samþykkt viðtalið með skömmum fyrirvara. Kim Wall og kærasti hennar Ole voru heima, áttu von á gestum í mat, þegar henni bárust skilaboð frá Madsen. Hún stökk til, bað kærastann að hafa ofan af fyrir gestunum fram eftir kvöldi, hún kæmi um leið og viðtalið væri búið. 

Örlög Kim Wall voru sorgleg, tilgangslaus og grimm. En það var æviferill hennar ekki.

Og það hafa eftirlifandi fjölskylda hennar og vinir einblínt á. Foreldrar hennar og bróðir stofnuðu sjóð í hennar nafni. Álegum styrkjum úr honum er ætlað að styðja blaðakonur til að segja sögur fólks sem sjaldan heyrist í, styrkja þær til að ferðast um heiminn og finna sögur til að segja. 

Þó minning og arfleið Kim Wall haldi áfram að lifa stendur eftir staðreyndin sem móðir hennar skrifaði og lesin var í upphafi þessa pistils. Kim Wall sneri aldrei aftur heim eftir að hafa einfaldlega verið í vinnunni. 

Ellefu drepin vegna skopmynda

Og Kim Wall er langt því frá eini blaðamaðurinn sem fær ekki að snúa aftur heim eftir vinnudaginn sinn. Í vikunni hófust réttarhöld yfir mönnum sem sakaðir eru um aðild að árásum á ritstjórnarskrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París í janúar árið 2015. 

Árásarmennirnir sjálfir voru drepnir í umsátri lögreglu en fjórtán voru síðar ákærðir fyrir aðild að morðunum. Ellefu á ritstjórn Charlie Hebdo létust þennan dag en árásin er talin hefndaraðgerð fyrir birtingu blaðsins á skopmyndum af Múhameð spámanni. 

epa08640729 A woman looks at a paintings depicting Charlie Hebdo's killed cartoonists by French street artist Christian Guemy, outside the satirical 
newspaper Charlie Hebdo's former office, in Paris, France, 02 September 2020. The Charlie Hebdo terror attack trial will be held from 02 September to 10 November 2020. The Charlie Hebdo terrorist attacks in Paris happened on 07 January 2015, with the storming of armed Islamist extremists of the satirical newspaper, starting three days of terror in the French capital.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búið er að teikna myndir af þeim sem létust í árásinni á skrifstofu Charlie Hebdo.

Ritstjórnir um allan heim vottuðu hinum látnu virðingu sína og birtu myndir undir myllumerkinu #JeSuisCharlie. Því fólk getur haft allar heimsins skoðanir á skopmyndunum, sem og öllum verkum blaða- og fréttamanna. Þau eru misgóð eins og öll mannanna verk. En líklega geta flestir verið sammála um að enginn eigi skilið að vera drepinn fyrir störf sín. 

epa04552008 Workers install a poster reading 'Je suis Charlie' (I am Charlie) on the Palais des Festivals facade, in Cannes, France, 09 January 2015. Ten journalists and two policemen were killed on 07 January in a terrorist attack at the
 Mynd: EPA
Fórnarlambanna var minnst á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2015.

Skotinn til bana fyrir Facebook-færslur

Það sem af er þessu herrans ári, 2020, hafa 17 blaðamenn dáið vegna vinnu sinnar. Sumir þeirra létust í hættulegum aðstæðum við fréttaöflun á stríðsvæðum. Langflestir þeirra voru þó myrtir. 

Einn þeirra er indverski blaðamaðurinn Shubham Mani Tripathi, sem skrifaði fyrir Kampu Mail í Uttar Pradesh. Þann 19.júní síðastliðinn var ráðist á hann þegar hann var á heimleið á mótorhjóli ásamt vini sínum. Tripathi lést af sárum sínum skömmu eftir komuna á sjúkrahús. 

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að morðið á Tripathi var skipulagt af fasteignaverktaka nokkrum. Konu að nafni Divya Awasthi. Blaðamaðurinn Tripathi hafði skrifað greinar og stöðuuppfærslur á Facebook með upplýsingum um verkefni sem hún var með á sínu borði, um ásakanir um að þar væri ekki í öllu farið eftir lögum og reglu. 

Skotnir á leið til vinnu

Fáeinum dögum síðar og í allt öðru landi var kollegi Tripathis sömuleiðis ráðinn af dögum. Hann hét German Vallecillo yngri, fréttamaður fyrir Canal 45, einkarekna sjónvarpsstöð í Hondúras. Vallecillo var í bíl ásamt myndatökumanninum Jorege Posas, þeir voru á leið aftur til vinnu eftir að hafa skroppið út hádeginu og fengið sér að borða. Tveir vopnaðir menn komu aðvífandi og skutu 12 skotum að bílnum þeirra. Þeir miðuðu aðallega á Vallecillo en ein kúlan hæfði Posas. Þeir létust báðir samstundis, á 41. afmælisdegi Vallecillos.

Rannsókn lögreglu í Hondúras beindist fljótt að glæpaklíkum sem smygla og selja eiturlyf í landinu. Nokkir úr þeirra röðum voru handteknir grunaðir um aðild að morðinu. Ástæðan er talin vera sú að Vallecillo fjallaði talsvert um eiturlyfjamarkaðinn í landinu í fréttum sínum. 

Rauði krossinn fyrir fréttamenn

Tölfræðin og frásagnirnar eru fengnar frá samtökunum CPJ, Committee to Protect Journalists. CPJ hafa verið kölluð Rauði krossinn fyrir fréttamenn. Samtökin voru stofnuð árið 1981. Stjórnarformaður þeirra við stofnunina var bandaríski fréttamaðurinn Walter Cronkite. 

Meðal þeirra sem síðan þá hafa setið í stjórn samtakanna eru Christiane Amanpour og Dan Rather. 

Dr. Courtney Radsch er talskona samtakanna, sér um tengsl þeirra við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðastofnanir til að mynda. Hún hefur sömuleiðis starfað sem blaðamaður, meðal annars fyrir The New York Times. 

Hún segir hlutverk CPJ að standa vörð um öryggi og réttindi blaðamanna í heiminum. Það gera þau meðal annars með því að segja fréttir af árásum, ofbeldi og hótunum sem fréttamenn verða fyrir, með því að styðja við þá fréttamenn sem eiga undir högg að sækja auk þess að vekja máls á lagasetningum og reglum sem hefta tjáningarfrelsi. 

Kveikjan að stofnun samtakanna voru ofsóknir gegn blaðamanninum og rithöfundinum Alcibiades González Delvalle. Hann er frá Paragúæ og var margsinnis hnepptur í varðhald fyrir skrif sín um spillingu í stjórnartíð Alfredo Stroessner, sem réði lögum og lofum í Paragúæ í áraraðir eftir að hafa leitt valdarán gegn ríkisstjórn landsins árið 1954.  

Þó í grunninn sé starf samtakana það sama í dag og við stofnun þeirra hefur margt í starfseminni þó breyst.

„Sífellt betri tækni gerir stærri hóp kleift að stunda fjölmiðlun. Ný tækni býður svo sömuleiðis upp á fleiri möguleika fyrir þau sem vilja stýra umræðu og upplýsingum. Auk hótana, ofbeldis og jafnvel morða geta blaðamenn nú átt á hættu ýmiskonar stafrænt ofbeldi, að með þeim sé fylgst auk þess sem mörg þekkja tölvuárásir og gagnastuld á eigin skinni,“ segir Courtney.  

Og baráttan er dauðans alvara, fáir hafa betri upplýsingar um það en CPJ

Lög um hryðjverk og falsfréttir notuð gegn blaðamönnum

En CPJ eru ekki einu samtökin í heiminum sem láta sig tjáningarfrelsið varða. Amnesty International er málefnið sömuleiðis hugleikið. 

„Við sjáum það að það hefur sjaldan verið meiri þörf en akkúrat núna að standa vörð um þennan mikilvæga rétt okkar. Því ef við getum ekki gagnrýnt stjórnvöld, aðgerðir stjórnvalda og framgöngu þeirra á tímum kórónuveirufaraldursins án þess að eiga á hættu einvhers konar ólögmæta frelsissviptingu þá er auðvitað ljóst að það er ekki samfélag sem myndi teljast heilbrigt lýðræðisríki,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi.

Það eru nefnilega ekki bara eiturlyfjabarónar, harðsvíraðir viðskiptamógúlar og aðrir sem setja sig upp á móti skrifum blaðamanna. Stjórnvöldum í mýmörgum löndum hugnast oft ekki umfjöllun fréttafólks. Samhljómur er í svörum Önnu og Courtney þegar þær útskýra aðferðir sem stjórnvöld nota gjarnan til að þagga niður í fjölmiðlafólki. 

Ákvæði í hryðjuverkalögum og lagasetningar gegn útbreiðslu falsfrétta eru meðal vopna sem sem stjórnvöld beita til að hefta tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks. Anna hjá Amnesty segir að í kórónuveirufaraldrinum hafi slíkum dæmum fjölgað. 

„Stjórnvöld, bæði í Evrópu og öðrum landsvæðum eru í raun að herða kverkatakið. Það eru ríki sem setja nýjar lagasetningar, til dæmis í Ungverjalandi, þar samþykkti þingið lög nú í ár sem hveða á um fimm ára fangelsisvist fyrir að birta falskar eða misvísandi upplýsingar. Með þessari lagasetningu er auðvitað búið að  gefa stjórnvöldum í raun það umboð að ákveða hvaða upplýsingar eru falskar eða misvísandi,“ segir Anna. 

„Þó að þetta sé sett fram undir því yfirskini að tryggja öryggi og heilsu almennings þá er þetta auðvitað nýtt til að þagga niður í fjölmiðlum, þagga niður í fólki sem er að gagnrýna yfirvöld, sem er að gagnrýna stefnu þeirra vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig að sjáum víða að stjórnvöld eru að teygja og toga alþjóðalög til þess að bæða niður tjáningu sem þeim hugnast ekki.“

Ástandið enn verra í kórónuveirufaraldrinum

Courtney tekur sem fyrr segir í sama streng og segir samtökin merkja mikla aukningu í fjölda mála þar sem blaðamönnum eru settar skorður fyrir það sem stjórnvöld telja brot á lögum um falsfréttir. 

Meðal upplýsinga sem samtökin halda utan um er fjöldi þeirra blaðamanna sem er hnepptur í varðhald eða ákærður fyrir brot á slíkum lögum. Örfá slík tilfelli voru skráð ár hvert, þar til fyrir um þremur árum, þá fjölgaði tilfellum umtalsvert. Kórónuveirufaraldurinn hefur gert það ástand enn verra. 

„Við erum með dæmi til dæmis frá Egyptalandi. Þar var blaðamaður handtekinn í mars á þessu ári fyrir að draga í efa opinberar tölur stjórnvalda um fjölda smita þar í landi. Hann setur þetta fram á Facebook-síðunni sinni. Hann var handtekinn og honum var haldið á leynilegum stað án samskipta við umheiminn í heilan mánuð. Hann var svo ákærður fyrir dreifingu falskra frétta og fyrir að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök,“ segir Anna.

„Þetta eru auðvitað mjög gróf brot og alvarleg brot á tjáningarfrelsi einstaklingana. Slíkt samfélag elur svo af sér ótta og sjálfsritskoðun og gerir það að verkum að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk fer að óttast það að hljóta einhvers konar refsingu fyrir það að gagnrýna stjórnvöld eða spyrja spurninga sem ættu að vera eðlilegar í lýðræðissamfélagi. “

60 blaðamanna saknað 

Courtney segir að þessi starfstétt, blaða og fréttafólk, sé mögulega eina starfstéttin þar sem fólk er reglulega myrt fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.

„Morð séu algengasta dánarorsök blaðamanna sem deyja vegna vinnu sinnar. Í langflestum tilfellum er erfitt að finna þá sem bera ábyrgð á morðunum,“ segir Courtney. Hún bætir við að auk þess eigi fréttamenn sömuleiðis á hættu að verða fyrir líkamsárásum og öðru ofbeldi vegna starfa sinna. Nýleg dæmi um slíkt séu blaðamenn sem fylgdust með mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, en voru svo sjálfir beittir ofbeldi af lögreglu.  

Þá eru ótaldir þeir fréttamenn sem hafa horfið á undanförnum árum. Courtney segir mér að samtökin leiti nú 60 fréttamanna sem hafa horfið við störf sín. Flestir þeirra hafa horfið við störf í Mið-Austurlöndum. 

Þeirra á meðal eru líbanski blaðaljósmyndarinn Samir Kassab og máritínski blaðamaðurinn Iszhak Ould Mokhtar, sem báðir unnu fyrir Sky News Arabia í Abu Dhabi. Til þeirra hefur ekkert spurst síðan í október árið 2013 þegar þeir voru við fréttaöflun í Aleppo í Sýrlandi. 

Í síðasta mánuði hleyptu samtökin af stokkunum átaki undir yfirskriftinni #MissingNotForgotten. Í myndskeiðinu hér að ofan sjáum við og heyrum í Rita Kassab, systir blaðaljósmyndarans Samir Kassab, sem ekkert hefur spurst til í að verða sjö ár. Hún segir bróður sinn hafa haft áhuga á ljósmyndun allt frá barnæsku. Líkt og mörg ungmenni fékk Samir fá tækifæri í heimalandi sínu, og freistaði gæfunnar í útlöndum. 

Bróðir þeirra, George Kassas, lagði sömuleiðis orð í belg í herferðinni og biðlaði til allra sem gætu veitt einhverjar upplýsingar um afdrif bróður þeirra. Hann biðlaði meðal annars til alþjóðastofnana og Sameinuðu þjóðanna. 

Og Sameinuðu þjóðirnar láta sig málið varða. Fyrr í vikunni var fjölmiðlafrelsi til umræðu hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss. 

Þar kom meðal annars fram að um það bil eitt þúsund fréttamenn hafi verið drepnir í heiminum síðastliðinn áratuginn. Níu af hverjum tíu þeirra mála teljast enn óupplýst. 

Simonetta Sommaruga, forseti Sviss, tók þar til máls og sagði meðal annars að fjölmiðlafrelsi sé ekki bara eitthvað sem hægt er að státa sig af. Fjölmiðlafrelsi sé nokkuð sem stöðugt þurfi að standa vörð um og vernda. 

Pólitík er hættulegasta umfjöllunarefnið

Aðspurð um hvort eitthvað svæði í heiminum sé hættulegra en annað fyrir fréttamenn um þessar mundir segir Anna:

„Við sjáum þetta reyndar á öllum landsvæðum heimsins en Ameríka, þá bæði Suður- og Norður-Ameríka saman, er þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera efst á lista yfir hættulegustu svæði heims fyrir fjölmiðlafólk og mannréttindafrömuði. Við sjáum að árið 2019 voru rúmlega 200 einstaklingar myrtir vegna mannréttindastarfa sinna á þessu svæði. Og margir aðrir sættu áréitni, lagalegum refsingum og þvinguðum mannshvörfum. Við vitum það að bara í Mexíkó í fyrra voru tíu blaðamenn myrtir þar vegna starfa sinna. Það er þegar stjórnvöldum hugnast ekki þau skilaboð sem fjölmiðlarnir hafa fram að færa.“

Umfjöllunarefni blaðamanna virðast þeim mis hættuleg. Hjá CPJ er haldið utan um upplýsingar um hvaða fréttir þeir fréttamenn sem verða fyrir árásum eða eru myrtir vinna að. Listinn er nokkuð langur en pólitík er það sem virðist hættulegasta umfjöllunarefnið. 

„Stjórnmálaumfjöllun virðist vera hættulegasta umfjöllunarefnið fyrir fréttamenn. Auk stjórnmálanna eru mannréttindi, umhverfismál og spilling meðal þess sem getur reynst hættulegt fyrir blaðamenn að fjalla um,“ segir Courtney og bætir við að í grunnin sé þetta einfalt:

óháðir blaðamenn sem gera fréttir um hluti sem þeim sem ráða hugnast ekki geta verið í hættu. 

„Nú sem fyrr í rauninni sætir fjölmiðlafólk geðþóttahandtökum, ólöglegu varðhaldi og ósanngjörnum réttarhöldum víða um heim. Og við sjáum að þetta hefur mjög kaldranaleg áhrif því fólk, fjölmiðlafólk og aðrir fer í sjálfsritskoðun og það verður til þess að upplýsingaflæði getur verið heft. Og að fjölmiðlafólk óttast hreinlega um öryggi sitt,“ segir Anna. 

Courtney segir mikilvægi þess að standa vörð um tjáningafrelsi fréttamanna ótvírætt í lýðræðissamfélagi. Fréttaflutningur þjóni almenningi fyrst og fremst, og veiti þeim sem ráða aðhald í að fara vel með vald sitt. Mikið að þeirri vitneskju sem við búum yfir í dag er tilkomin vegna upplýsinga sem fréttamenn hafa aflað. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV