Donald Trump finnst að Fox eigi að reka fréttamann

05.09.2020 - 17:17
epa08571604 US President Donald J. Trump arrives for a press briefing in the Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, on 28 July 2020.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki vilja svara hvort hann muni sætta sig við úrslit kosninganna. Mynd: EPA-EFE - Sipa USA Pool
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, finnst að Fox-fréttastofan eigi að reka fréttamanninn Jennifer Griffin. Griffin er einn þeirra fréttamanna sem segist hafa fengið það staðfest að forsetinn hafi kallað fallna, bandaríska hermenn „aula“ og „aumingja“ í París fyrir tveimur árum.

Málið snýst um frétt tímartisins Atlantic.

Þar var greint frá því að Trump forseti hefði hætt við heimsókn í bandarískan grafreit nærri París fyrir tveimur árum og sagt að þar væri lið sem hefði tapað. 

Opinbera skýringin var sú að hætt hefði verið heimsóknina vegna veðurs en samkvæmt frétt Atlantic taldi forsetinn að vindurinn myndi eyðileggja hárgreiðsluna hans og ekki væri mikilvægt að heiðra fallna hermenn. 

Jennifer Griffin, fréttamaður Fox-fréttastofunnar, var ein þeirra sem tók málið upp og sagðist hafa fengið það staðfest að forsetinn hefði látið ummælin falla.  Og þótt bæði Hvíta húsið og Trump sjálfur hafi vísað ummælunum á bug virðist frétt Fox hafa snert viðkvæma taug hjá forsetanum. Enda stöðin verið honum hliðholl. 

„Fox ætti að reka Jennifer Griffin fyrir svona fréttamennsku. Hún hafði aldrei samband við okkur. Fox-fréttir eru búnar,“ skrifaði forsetinn á Twitter í dag. 

Guardian greinir frá því í dag að málið sé afar viðkvæmt fyrir Trump. Þá veki athygli að þótt forsetinn harðneiti að hafa látið þessi orð falla sé John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, þögull sem gröfin.

Kelly er nefndur á nafn í umfjöllun Atlantic. Þar kemur fram að hann og Trump hafi heimsótt saman Arlington kirkjugarðinn og þegar þeir stóðu við gröf sonar Kelly á forsetinn að hafa sagt: „Ég næ þessu ekki. Hvað fá þeir út úr þessu.“ Sonur Kelly féll í stríðinu í Afganistan árið 2010.

Guardian segir að Trump hafi látið í veðri vaka að Kelly sé heimildarmaðurinn fyrir frétt Atlantic.  Hann sagði í gær að Kelly hefði verið algjörlega búinn á því síðustu mánuðina í starfi og ekki verið starfi sínu vaxinn.  

Fjölmiðlar vestanhafs segja að vinir Kelly hafi hvatt hann til að stíga fram og gera hreint fyrir sínum dyrum.  Hann vilji það hins vegar ekki þar sem hann vilji virða skyldur sínar gagnvart forsetanum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi