Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vetrarástand á vegum og norðan hríð

04.09.2020 - 09:33
Innlent · Landshlutar · færð · veður
Mynd með færslu
Við Álkuskála á Haukagilsheiði í Austur-Húnavatnssýslu nú í morgunsárið Mynd: Aðsend mynd
Víða á norðanverðu hálendinu hefur snjóað talsvert, þar er skafrenningur og vetrarástand. Gular veðurviðvaranir eru í gangi framm á kvöld. Ferðalangar ættu að huga vel að veðurspá og færð.

Eftir nóttina er krapi á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði. Mikill snjór er á Biskupshálsi og þungfært eins og er en verið er að hreinsa veginn. Einnig er krapi á Hellisheiði eystri.

Enn eru gular veðurviðvaranir í gangi á ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendinu. Viðvaranir á ströndum og Norðurlandi vestra gilda til hádegis en hinar til kvölds. Varað er við hvassri norðan hríð, slyddu og snjókomu ofan 400 metra yfir sjávarmáli. Á Austfjörðum og Suðausturlandi gætu vindhviður náð allt að 35 m/s sem er varasamt ökutækjum með aftanívagna.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV