Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er ekta stórillviðri“ 

04.09.2020 - 08:01
Innlent · Óveður · Vatnsveður · veður · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kveikur
„Þetta er náttúrulega búið að vera alveg svakalegt vatnsveður í gær og nótt. Maður man varla eftir að hafa séð svona vöxt í ám og lækjum á svona stuttum tíma,“ segir Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, í samtali við fréttastofu.

„Þetta er ekta stórillviðri, maður man bara eftir svona stórillviðrum frá því í gamla daga,“ segir hann. Jóhannes segist hafa hýst hrossin í gær til að búa sig undir veðrið en annars hafi hann ekki þurft að ráðast í miklar varúðarráðstafanir.

Hann segir að nú dragi úr úrkomu á svæðinu og sennilega hafi ekki snjóað mikið, nema hugsanlega til fjalla. Jóhannes segist ekki vita til þess að neitt tjón hafi orðið af völdum vatnsveðursins hjá honum eða á bæjum í kring. „Ég held að það hafi sloppið til,“ segir hann. Rokið hafi heldur ekki verið til tjóns. 

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að halda sig inni í dag segist Jóhannes ætla að kíkja út. „En annars er alltaf nóg að gera inni við ef svoleiðis er,“ bætir hann við.