Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þegar fyrirtæki berjast gegn sannleikanum

04.09.2020 - 17:24
Mynd: EPA-EFE / EPA
Hrun þýsku greiðslumiðunarinnar Wirecard afhjúpaði stærsta fjármálasvindli Þýskalands. Í viðbót við svindlið er einn kaflinn í þeirri sögu hvernig Wirecard hundelti blaðamenn Financial Times, sem voru fyrstir til að impra á að ekki væri allt í lagi. Wirecard sakaði þá um að ganga erinda vogunarsjóða sem græddu á verðfalli hlutabréfa Wirecard, brutust inn í tölvur þeirra og herjuðu á þá á samfélagsmiðlum. Útspekúleruð herferð, sem lauk þegar svindl Wirecard varð lýðum ljóst.

Wirecard í uppáhaldi

Wirecard tók til starfa sem greiðslumiðlunarfyrirtæki fyrir tæpum tuttugu árum. Eins og Marcus Braun forstjóri fyrirtækisins sagði fyrir fjórum árum: fyrirtækið spratt úr huga okkar, það var dæmigert net-sprotafyrirtæki.

Í Þýskalandi, þar sem meira fer fyrir bönkum og hefðbundnum iðnfyrirtækjum, var Wirecard í sérstöku uppáhaldi. Virtist tákn nýrra tíma, nýrra hugmynda og nýrra gróðamöguleika. Og hafði á sér svalt yfirbragð tæknifyrirtækja Kísildalsins ameríska. Fyrirtækið var skráð, hlutabréfaverðið fór með himinskautum og þar unnu þar 5500 manns á 28 stöðum í heiminum.

Blaðamaður FT fer að rýna í Wirecard

Í apríl 2015 fjallaði blaðamaður Financial Times, Dan McCrum um Wirecard í bloggi blaðsins, FT Alpaville. Bloggið er aðeins á netinu og þar er fjallað um ýmsar hliðar viðskiptalífsins í óhátíðlegum stíl en hvergi slakað á nákvæmninni. McCrum hafði  fengið ábendingu um að ekki væri allt sem sýndist hjá Wirecard og fór að rýna í fyrirtækið.

Skýrsla með ásökunum um misferli Wirecard

Snemma árs 2016 birtu tveir fjárfestar skýrslu um Wirecard, Zatarra skýrsluna svokölluðu, kennda við dulnefni greifans af Monte Cristo í samnefndri sögu Alexandre Dumas. Höfundar skýrslunnar voru ekkert að skafa af því, sögðu Wirecard nota svik og pretti til að gefa algjörlega óraunsæja mynd af stöðunni. Hlutabréf Wirecard tóku dýfu.

Eftir umfjöllun um skýrsluna fóru skrýtnir hlutir að gerast

McCrum fjallaði um skýrsluna. Lögfræðingar Wirecard brugðust ókvæða við. Undarlegir hlutir fóru að gerast. Tilfinningin var að framkvæmdastjóri fyrirtækisins Jan Marsalek væri á bak við þær hræringar. Marsalek átti heima í hálfgerðri höll í Vín, bjó annars mest á lúxushótelum á sífelldum reisum, hafði athyglisverð tengsl við Rússa og hægri öfgaöfl.

Saga blaðamannanna

Nú hefur svo Dan McCrum skrifað grein um hvernig það var að rannsaka Wirecard. Það gekk nefinlega ekki lítið á. Það var reynt að planta falsfréttum í blaðið, en FT féll ekki í þá gryfju að birta. Í gegnum kunningja í fjármálageiranum fékk Paul Murphy rannsóknaritstjóri FT tilboð um greiðslu upp á 10 milljónir Bandaríkjadala, um 140 milljónir króna, fyrir að hætta rannsókn á Wirecard. Það var reynt að fá starfsmann FT til að fjarlægja greinar um Wirecard af vef blaðsins.

Pósthólf hakkað

Pósthólf FT var hakkað og póstum blaðamannanna stolið. Hverjir sem þar voru að verki klipptu samskipin til og skálduðu í eyðurnar svo útkoman var fjarri sannleikanum. Það var róið að því leynt og ljóst að tortryggja McCrum og samstarfsmenn hans við yfirmenn FT. Þeir væru spilltir, skrifuðu Wirecard niður í þágu vogunarsjóða sem stunduðu skortsölu og borguðu blaðamönnunum.

FT rannsakar blaðamennina

Afleiðingin var tveggja mánaða innanhússrannsókn FT á hvort það væri allt í lagi með blaðamennina. Og svo voru það sígildar hótanir lögfræðinga sem sérhæfa sig í meiðyrðamálum. Almannatenglar unnu að því að grafa undan skrifum FT um Wirecard. Og á Twitter var hellt fúkyrðum yfir blaðamennina. Þeir kallaðir öllum illum nöfnum, væru ekkert annað en ótíndir glæpamenn. McCrum og félagar voru þó nokkuð vissir í sinni sök, höfðu góðar heimildir en það var ekki auðvelt fyrir þá að fjalla um Wirecard undir þessum aðförum.

Svindlsagan kemur í ljós

Alltaf héldu yfirmenn Wirecard áfram að verja fyrirtækið en að lokum fóru útlínur í svindlsögu að birtast. Þann 19. júní tilkynnti Marcus Braun að það væri ekki útilokað að Wirecard væri fórnarlamb svika.

Það skipti engum togum: Wirecard hrundi, Marsalek hvarf, fer enn huldu höfði og Braun er í fangelsi meðan rannsókn stendur yfir. Hluti af sögunni er þetta hvernig Wirecard gat, með aðstoð lögfræðinga, endurskoðenda og fleiri haldið blekkingunni gangandi, meðal annars með því að herja á blaðamennina með ærnum tilkostnaði.

Fyrirtæki sem berjast gegn sannleikanum, sama hvað

Eitt er að fyrirtæki vilji verja sig gegn misvísandi eða rangri umfjöllun. En yfirmenn Wirecard, sem réðu lögfræðinga, spæjara og almannatengla til að hrella FT og blaðamennina, vissu vel að það sem Financial Times skrifaði var rétt. Með árásum á blaðamenn réðust yfirmenn Wirecard í raun gegn sannleikanum en já, sannleikurinn sigraði í þessari glímu.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir