Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rússar sakaðir um undirróðursstarfsemi vestra

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Rússar gera hvað þeir geta til að grafa undan trausti á kosningakerfi Bandaríkjanna, einkum sem lýtur að póstkosningu. Þetta er niðurstaða greiningar heimavarna Bandaríkjanna, Homeland Security.

Bandarískir fjölmiðlar hafa gert greiningunni skil. Í henni segir að með tilstilli fjölmiðla og samfélagsmiðla hafi Rússar af illvilja ýtt undir vantraust Bandaríkjamanna sjálfra á kosningakerfinu.

Þeir óttist kosningasvindl, alvarleg mistök við talningu atkvæða og að póstþjónustan misfari með kjörseðla. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sjálfur hamrað á þessu.

Að því er segir í skýrslunni magni Rússar þá skoðun að með póstkosningu sé verið að hygla ákveðnum frambjóðendum umfram aðra. Embættismenn vestra hafa mælt með póstkosningum til að draga úr útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Adam Schiff formaður njósnanefndar Bandaríkjaþings segir í yfirlýsingu að Rússar bergmáli skaðvænlega orðræðu Trumps og Willams Barr dómsmálaráðherra varðandi póstkosningar.

Ýmsir öldungadeildarþingmenn úr röðum Demókrata hafa kallað eftir því að rússnesk samtök og einstaklingar verði þegar beitt refsiaðgerðum vegna afskipta sinna af forsetakosningunum.

Sýna þurfi Pútín Rússlandsforseta að slík framkoma verði ekki liðin. Þeirra mat er að aðgerðir Rússa séu til þess gerðar að skaða framboð Joe Biden forsetaefnis flokksins.