Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að óháður aðili sinni eftirliti með greiningu

04.09.2020 - 19:50
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Fyrrverandi forstjóri og yfirlæknir Krabbameinsfélags Íslands segir mikilvægt að óháður aðili fari yfir öll leghálssýni sem voru greind hjá Krabbameinsfélaginu undanfarin þrjú ár. Hann lagði til árið 2017 að gerðar yrðu breytingar á fyrirkomulagi krabbameinsskimunar.

Frá áramótum verða rannsóknir á leghálssýnum gerðar á veirufræðideild Landspítalans, en núna eru öll sýni greind hjá Krabbameinsfélaginu, hvort sem þau eru tekin þar eða hjá kvensjúkdómalækni. Þá færist starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins til Landspítala og Heilsugæslunnar, samkvæmt ráðleggingum Skimunarráðs Landlæknis. Thor Aspelund, formaður Skimunarráðs, segir að til greina komi að sýni verði send til útlanda til rannsóknar. „Að fá meira inn erlenda aðila til að taka út og hjálpa okkur í eftirlitinu,“ segir Thor. Hann segir mikilvægt að óháður aðili komi þar að.

Segir afleitt að félagið geri einn starfsmann ábyrgan

Talið er að 150 konur hafi fengið ranga greiningu á leghálssýni hjá Krabbameinsfélaginu frá því árið 2017. Fram kom í yfirlýsingu frá félaginu í gær að mistök við greiningu sýnanna hefðu verið rakin til eins starfsmanns, sem hefði átt við veikindi að stríða. Kristján Oddsson, fyrrverandi forstjóri og yfirlæknir Krabbameinsfélags Íslands, segir afleitt að félagið geri einn starfsmann ábyrgan fyrir mistökunum. „Við gerum öll mistök en ég held að það sé afleitt að Krabbameinsfélagið hafi tekið á þessu máli með þessum hætti; að gera einn ákveðinn starfsmann ábyrgan. Bæði framkvæmdastjóri og stjórn þessa félags hefur verið ítrekað varað við því skipulagi sem hefur verið hjá félaginu, að það gæti leitt til heilsutjóns hjá konum,“ segir Kristján.

Kristján telur ekki þörf á að allar konur mæti aftur í sýnatöku, heldur þurfi að endurskoða þau sýni sem þegar hafa verið tekin. Hann segir mikilvægt að óháður aðili fari yfir öll sýni, ekki aðeins þau sem þessi starfsmaður greindi. „Við erum að tala um þrjú ár aftur í tímann, sem eru kannski á bilinu 50 til 70 þúsund sýni, að þau eigi að sendi erlendis á viðurkennda frumurannsóknarstofu,“ segir Kristján.

Hann segir mikilvægt að konur veigri sér ekki við að fara í skimun, en núverandi fyrirkomulag gangi ekki, líkt og hann benti á í minnisblaði sem hann skrifaði til framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins árið 2017, þegar til stóð að framlengja þjónustusamning ríkisins við Krabbameinsfélagið. 

„Þá stóð til að framlengja samninginn um þrjú til fimm ár og ég sagði að slíkt gengi gegn ráðleggingum faglegrar stjórnar leitarsviðs og landlæknis, og gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu kvenna og því miður hefur það raungerst,“ segir Kristján.