Messi staðfestir að hann verði áfram hjá Barcelona

epa05924566 FC Barcelona's Argentinian striker Lionel Messi jubilates the 3-2-victory against Real Madrid during the Liga Primera Division 33rd round match between Real Madrid and FC Barcelona at the Santiago Bernabeu stadium in Madrid, Spain, 23 April 2017.  EPA/Juan Carlos Hidalgo
 Mynd: EPA

Messi staðfestir að hann verði áfram hjá Barcelona

04.09.2020 - 16:10
Argentínski fótboltamaðurinn Lionel Messi hefur staðfest að hann verði áfram í herbúðum Barcelona í vetur. Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð hans á liðnum vikum eftir að hann óskaði eftir riftun á samningi sínum við katalónska liðið.

Messi staðfesti þetta í viðtali við fótboltavefsíðuna goal.com.

Hann hafði í ágúst óskað eftir því að fá að yfirgefa Barcelona en hann hefur verið í röðum félagsins frá því hann var 13 ára gamall, í 20 ár. Barcelona sagði hins vegar að hann hefði ekki sent beiðni sína innan þess frests sem samningur hans kveði á um og krafðist þess að reiddar yrðu fram 700 milljónir Evra til að losa hann undan samningi.

Messi segir við Goal að hann hafi ekki viljað standa í dómsmáli við félagið sem hann ann svo heitt.

„Þegar ég sagði konunni minni og börnum að ég vildi fara varð mikið drama. Öll fjölskyldan fór að gráta og börnin mín vildu ekki yfirgefa Barcelona eða skipta um skóla,“ segir hann.

„Ég leit lengra fram á veginn og ég vil keppa á hæsta þrepi, vinna titla og keppa um sigur í Meistaradeildinni. Þú getur tapað eða unnið þar, því keppnin er mjög hörð, en ég vil vera samkeppnishæfur.“

„Að minnsta kosti að vera samkeppnishæfur og ekki brotna, eins og við gerðum í Róm, í Liverpool, í Lissabon. Allt það leiddi mig að því að hugsa um þessa ákvörðun sem ég tók.“

Barcelona stóð fast á sínu

Messi óskaði eftir því að fá að fara. Félagið tók hins vegar ekki í mál að rifta samningi hans, sem var það sem Argentínumaðurinn óskaði eftir. Hann taldi sig eiga rétt á því vegna klásúlu í samningi hans sem sagði að hann gæti losnað án greiðslu ef óskað væri eftir því innan 20 daga frá því að leiktíðinni lýkur. Messi telur forseta Barcelona, Josep Bartomeu, hafa gengið á bak orða sinna.

„Ég hélt og var viss um að ég gæti farið, forsetinn sagði alltaf að í lok leiktíðar gæti ég ákveðið hvort ég yrði áfram eða ekki.“

„Núna hengir félagið sig í að ég hafi ekki sagst vilja fara fyrir 10. júní, en 10. júní vorum við enn að keppa í deildinni í hringiðu þessa hræðilega faraldurs og það riðlaði leiktíðinni.“

„Þetta er ástæðan fyrir því að ég verð áfram hjá félaginu. Nú mun ég halda áfram því forsetinn sagði mér að eina leiðin fyrir mig til að fara væri að greiða upp 700 milljón Evrurnar og það er ekki gerlegt.“

Vildi ekki fara dómstólaleiðina

Messi hefði getað farið með málið fyrir dómstóla til að útkljá hvað væri rétt í samningi hans. Það var hins vegar ekki leið sem hann vildi fara.

„Ég myndi aldrei draga Barcelona fyrir dómstóla því Barca er félagið sem ég elska, sem gaf mér allt sem ég á.“

„Þetta er félag lífs míns, hér á ég mitt líf. Barcelona gaf mér allt og ég gaf þeim allt. Það kom aldrei til greina að draga félagið fyrir dómstóla.“

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Segir Messi nú vilja vera áfram hjá Barcelona