Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kínastjórn hvött til endurskoðunar á öryggislögum

epa08517087 Pro-democracy protesters take part in a 'lunch with you' rally at a shopping mall in Hong Kong, China, 30 June 2020. China's National People's Congress Standing Committee has unanimously approved a national security law for Hong Kong, prohibiting acts of secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces to endanger national security.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frelsi Hong Kong stendur mikil ógn af öryggislögunum sem Kínastjórn setti fyrr í sumar. Þau eru sömuleiðis brot á alþjóðlegum lagaskyldum Kína. Þetta kemur fram í bréfi sérstakrar mannréttindanefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnin í Peking hefur fengið yfir sig holskeflu gagnrýni vegna öryggislaganna sem tóku gildi seint í júní. Ströng refsiákvæði laganna hafi þaggað niður raddir fjölmargra mótmælenda í Hong Kong. 

Jafnframt er því haldið fram að með lögunum hafi því frelsi og fullveldi sem lofað var eftir að Kínverjar tóku við stjórn borgarinnar af Bretum, verið kastað fyrir róða.  

Fulltrúar mannréttindanefndarinnar telja að með lögunum virðist málfrelsi, friðsamleg mótmæli og hverskyns gagnrýni á Kína metin sem glæpsamlegt athæfi. Frelsi fjölmiðla hafi sömuleiðis verið skert. Grundvallarmannréttindi séu þannig fótum troðin.  

Sömuleiðis er þungum áhyggjum lýst yfir því ákvæði laganna að dómsvald í tilteknum málum geti flust frá Hong Kong til meginlands Kína. Það gæti dregið úr líkum á réttlátri málsmeðferð. 

Kínastjórn er því hvött til að endurskoða löggjöfina og að fenginn verði óháður aðili til að meta hvort hún stangist á við alþjóðlegar skuldbindingar Kína í mannréttindamálum.