Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kannast ekki við mat um hæfni Krabbameinsfélagsins

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Starfsmenn Krabbameinsfélagsins kannast ekki við að í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga fyrir leitarstöðina árið 2017 hafi farið fram mat á því hvort Krabbameinsfélagið væri hæft til að skima fyrir krabbameinum eins og fram kom í Kastljósi í gær. Krabbameinsfélagið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þetta kemur fram.

Í Kastljósi í gær sagði Tryggvi Björn Stefánsson, krabbameinsskurðlæknir, sem vann við kröfulýsingarnar fyrir leitarstöðina að hann hefði fengið upplýsingar um að gæðaeftirlit og gæðaskráning væri í algjörum molum að eigin sögn. Unnið hafi verið að kröfulýsingu ásamt starfsfólki Krabbameinsfélagsins og starfsfólki hjá ráðuneytinu.

 „Það má segja að gæðaskráningin, hún gerðist í mjög gömlum ófullkomnum gagnagrunni og það virtist ekki vera neitt gæðaeftirlitskerfi eins og Evrópuleiðbeiningar segja til um,“ sagði Tryggvi.  „Það auðvitað áttuðu sig allir á því að þetta væri alveg rétt en það má segja að í lok þessa tímabils, það er að segja í október 2017 fram í mars 2018, þegar ný ríkisstjórn tekur við, þá var ákveðið af ráðherra að Krabbameinsfélagið myndi fá að halda áfram þessari skimun þó að það væri búið að koma fram á þessum fundum okkar að það væri eiginlega algert glapræði því Krabbameinsfélagið gæti það ekki.“

Ágúst segir að ekki hafi verið gerðar miklar breytingar hjá þeim eftir árið 2017.

Gæðaeftirlit til staðar og í daglegri notkun

Krabbameinsfélagið hafnar alfarið þessum fullyrðingum um að gæðaeftirlit og gæðaskráning Leitarstöðvarinnar sé í molum. „Rangt er að ekki hafi verið til staðar gæðaeftirlitskerfi líkt því sem Evrópuleiðbeiningar segja til um. Það er til staðar og í daglegri notkun,“ segir í yfirlýsingunni.

Í júní 2018 tilkynnti  heilbrigðisráðuneytið að ákveðið hefði verið að gera hlé á vinnu við kröfulýsingar og yrði leitað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að framlengja samning um skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi um 18 mánuði. ÞJónustusamningur hefur verið framlengdur fimm sinnum síðan 2017.

Í tilkynningunni er sagt að á árunum 1981 til 2013 þegar Kristján Sigurðsson var yfirlæknir hafi mikil vinna og áhersla verið lögð á útgáfu gæðamælikvarða, og gæða- og árangursmats. Mun minni áhersla hafi verið lögð á þennan þátt starfseminnar á árunum 2012 til 2017 en í tíð núverandi yfirlæknis, Ágústs Inga Ágústssonar, hafi áhersla á þennan hluta aukist aftur og ítarleg vinna við skilgreiningu gæðavísa og uppgjör leitarinnar verið í gangi síðan. 

Þá hafi ekki borist athugasemdir frá heilbrigðisráðuneytinu vegna starfseminnar.

Þær breytingar verða á fyrirkomulagi krabbameinsskimana um næstu áramót að ábyrgð á leghálsskimunum færist frá Krabbameinsfélagi Íslands til heilsugæslunnar og brjóstaskimanir til Landspítala. Þessar breytingar tengjast ekki þeim mistökum sem nú eru til rannsóknar hjá embætti landlæknis, segir í yfirlýsingu Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í dag.

Yfirlýsing Krabbameinsfélagsins í heild: 

Skipulag og framkvæmd skimunar leitarstöðvarinnar byggir á vel skilgreindum gæðakröfum sem fram koma í kröfulýsingum frá yfirvöldum. Krabbameinsfélagið verður að uppfylla þær kröfur sem þar koma fram og hefur gert það.

Leitarstöð Krabbameinsfélagsins ber að viðhafa eftirlit og fylgjast með gæðum og árangri skimunarinnar og hefur gert það.

Fjöldi ritrýndra greina hafa verið birtar um leitarstarfið hér á landi og árangur af því. Á árunum 1981-2013 þegar Kristján Sigurðsson var yfirlæknir og sviðsstjóri leitarstarfsins var mikil áhersla og vinna lögð í útgáfu gæðamælikvarða, gæða- og árangursmats. Árlega voru gefnar út ítarlegar skýrslur þar sem fram komu töluleg gögn um gæði starfseminnar.

Í tíð fyrrverandi yfirlæknis og sviðsstjóra leitarsviðs á árunum 2012-2017 var mun minni áhersla lögð á þennan þátt starfseminnar. Frá árinu 2017 og í tíð núverandi yfirlæknis Ágústs Inga Ágústssonar jókst áhersla á þessi mál aftur og síðan hefur verið í gangi ítarleg vinna við skilgreiningu gæðavísa og uppgjör leitarinnar. Birting gæðavísa með gagnvirkum hætti er hafin í frumdrögum á heimasíðu Leitarstöðvar. Vonir standa til að hægt verði að fjölga gæðavísunum þegar frekar líður á haustið og uppgjör skimunarinnar verður birt eftir áramót.

Kröfur um menntun starfsmanna á frumurannsóknarstofu leitarstöðvarinnar eru uppfylltar í samræmi við kröfulýsingu Sjúkratrygginga Íslands og Evrópuleiðbeiningar. Á rannsóknarstofunni starfar þrautreynt og vel menntað fólk sem nýtur símenntunar.

Samkvæmt kröfulýsingu gegna Sjúkratryggingar Íslands, Embætti landlæknis og Geislavarnir ríkisins eftirlitshlutverki með starfseminni.

Geislavarnir ríkisins hafa sinnt eftirlitsskyldu sinni reglulega og brugðist hefur verið við þeirra tilmælum.

Sjúkratryggingar Íslands hafa reglulega óskað eftir upplýsingum og fengið þær.

Þjónustusamningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið hefur verið framlengdur fimm sinnum á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til loka árs 2020. Í viðræðum um þær framlengingar hefur félagið ekki fengið neinar athugasemdir við framkvæmd eða fyrirkomulag skimana. Eins og áður segir byggir samningurinn á skýrri kröfulýsingu frá árinu 2013.

Frá heilbrigðisráðuneytinu hafa ekki borist athugasemdir vegna starfseminnar. 

Vinna við endurskoðun kröfulýsinga var hafin árið 2017 að frumkvæði Krabbameinsfélagsins. Áður hafði verið samin kröfulýsing fyrir skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi en endurskoðun kröfulýsinga fyrir skimanir fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi fór fram á tímabilinu frá október 2017 til júní 2018. Í henni tóku þátt starfsmenn Krabbameinsfélagsins og fulltrúi Sjúkratrygginga ásamt starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins, sem stýrðu vinnunni.

Í júní 2018 tilkynnti ráðuneytið að ákveðið hefði verið að gera hlé á vinnu við kröfulýsingar og yrði leitað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að framlengja samning um skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi um 18 mánuði. Á sama tíma var tilkynnt að fagráði um skimanir hefði verið falið að koma með tillögur til ráðherra að framtíðarfyrirkomulagi skimana um haustið.

Starfsmenn Krabbameinsfélagsins kannast ekki við að í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga hafi farið fram mat á því hvort Krabbameinsfélagið væri hæft til að skima fyrir krabbameinum eins og fram kom í Kastljósi í gær. Félagið hafnar alfarið þeirri fullyrðingu sem fram kom þar um að gæðaeftirlit og gæðaskráning Leitarstöðvarinnar sé í algjörum molum. Rangt er að ekki hafi verið til staðar gæðaeftirlitskerfi líkt því sem Evrópuleiðbeiningar segja til um. Það er til staðar og í daglegri notkun.

Í Kastljósi var vitnað til úttektar á starfsemi Leitarstöðvarinnar. Félagið þekkir ekki til úttektarinnar og óskaði eftir henni frá Sjúkratryggingum í dag. Hún hefur ekki borist.

Í máli stjórnanda Kastljóssins kom fram að nýgengi leghálskrabbameins sé tvöfalt meira hér á landi en viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segja fyrir um. Þetta er rétt. Nýgengi á Íslandi er 8,6 tilfelli af 100.000 konum en markmið WHO er að nýgengið fari undir 4 tilfelli á hverjar 100.000 konur. Nýgengi á heimsvísu er í dag 13,1 tilfelli á hverjar 100.000 konur. WHO setti þessi markmið fram árið 2018 þar sem gert er ráð fyrir að þau náist fyrir ævilok þeirra sem eru ungar stúlkur í dag. Ekkert land í heiminum hefur náð þessum markmiðum í dag en talið er að aðeins tvö lönd muni geta náð þeim fyrir árið 2035. Nýgengi leghálskrabbameina er lægra á Íslandi en í Danmörku og Noregi, jafn hátt og í Svíþjóð en hærra en í Finnlandi.