Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fyrr frýs í helvíti en að þetta hafi verið óvart“

04.09.2020 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Þung orð voru látin falla í umræðu um störf þingsins undir lok þingfundar í morgun og meirihlutinn sakaður um dónaskap. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því að breytingartillögu við frumvarp um hlutdeildarlán hefði verið laumað inn þegar þingmenn greiddu atkvæði um málið án þess að nokkur hefði vitað af því. „Þetta eru vinnubrögð sem eru fullkomlega óásættanleg.“

Hlutdeildarlán eiga að auðvelda tekju-og eignalitlum að eignast sína fyrstu íbúð. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember.

Helga Vala sagði breytinguna, sem laumað var inn, þýða að fólk sem ekki væri með kauptilboð í íbúð og ekki með samþykkt kauptilboð gæti sótt um hlutdeildarlán.  „Þetta þýðir að maður getur sótt um ótilgreint lán fyrir ótilgreindri fjárhæð í ótilgreinda íbúð.“ Enginn hefði ætlað sér að samþykkja þetta enda hefði breytingartillagan ekki verið boðuð,  ekki með tölvupósti, samtölum eða nokkurn tímann.

Halla Signý Kristjánsdóttir, sem var framsögumaður breytingartillögunnar, sagði hana hafa verið lagða fram þar sem skort hefði heimild fyrir reglugerð sem fæli í sér að umsækjendur með samþykkt kauptilboð nytu forgangs.  Hún viðurkenndi að þetta hefði verið handvömm og sagðist hafa sent póst til nefndarmanna til að hægt væri að ræða þetta mál síðar í dag.

En þetta dugði ekki til að lægja öldurnar.  Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði að miðað við þau vinnubrögð sem meirihluti velferðarnefndar hefði stundað á kjörtímabilinu „þá frýs fyrr í helvíti en að ég trúi að þetta hafi verið óvart.“ Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði þingið þurfa taka sig saman í andlitinu þegar kæmi að faglegum vinnubrögðum og

Guðmundur Ingi Kristinsson frá Flokki fólksins sagði þetta óboðlega framkomu og meirihlutanum til háborinnar skammar. Klúðurslegt frumvarp væri orðið enn klúðurslegra. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sakaði meirihlutann um dónaskap en  vonaði að þetta hefði verið óvart. Ef svo væri ekki þá væri þetta óheiðarlegt.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, reyndi að bera klæði á vopnin og sagði fullan vilja af hálfu stjórnarmeirihlutans og ráðherrans að allar reglugerðir yrðu kynntar í velferðarnefnd áður en þær yrðu undirritaðar. Málið væri það stórt og full ástæða til að eyða allri tortryggni. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði undir lok umræðunnar að breytingartillagan hefði legið frammi sem þingskjal í nærri sex klukkustundir. Því hefðu þingmenn haft tíma til að kynna sér málið. Raunar bæri þeim skylda að kynna sér það sem til stæði að greiða atkvæði um þótt þeir sætu ekki í viðkomandi nefnd.  Það væri þó ljóst að þarna hefðu átt sér stað mistök, þau hefðu verið viðurkennd og velferðarnefnd myndi nú fara yfir það hvort frumvarpið hefði breyst til hins verra eða ekki með áðurnefndri breytingartillögu. 

Hann benti síðan á að umræðan um þetta hefði staðið í þrjú korter og að hann yrði glaður ef menn eyddu sambærilegri tímalengd í að hrósa og gleðjast yfir því sem væri vel gert. En það væri því miður sjaldgæft. „Og það gefur að sjálfsögðu þá mynd að hér sé allt í handaskolum en svo er ekki, sem betur fer.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV