Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimm fín fyrir eftirpartýið

Mynd með færslu
 Mynd: Because music - La Vita Nouva

Fimm fín fyrir eftirpartýið

04.09.2020 - 14:05

Höfundar

Það eru þessi sem sluppu frá fimmunni í ágúst sem eiga sviðið. Þetta eru lúmskar rólegheitaneglur sem vinna á með hlustun. Það er vissulega óheppilegt að lögin séu ekki alveg glæný en umsjónarmaður axlar ábyrgð á því og vonar að það komi ekki að sök.

Greentea Peng - Hu Man

Aria Wells, spilar neo-soul og sækadelíu r&b að eigin sögn og kemur frá Lundúnum. Hún sækir áhrif til Lauryn Hill og Erykah Badu og er að verða meira og meira áberandi í Bretlandi með hverjum sönglinum sem hún gefur út. Nýja lagið hennar fjallar um andlega upplifun (fyllerí?) sem hún varð fyrir í óskilgreindri messu (sennilega reifi) í Mexikó á dögunum.


Biig Piig – Dont Turn Around

Írska poppprinsessan Jessica Smyth, sem er þekkt sem rappynjan Biig Piig, er að rísa upp á stjörnuhimininn eins og Greentea Peng. Hún notar ensku og spænsku nánast jöfnum höndum í tónsmíðum sínum þó hún haldi sig við enskuna í súpermjúka slagaranum Dont Turn Around sem er annar söngull hennar á árinu.


Silvan Esso – Ferris Wheel

Jæja, þá förum við yfir hafið og til Bandaríkjana en það er enn þá sami dj-inn í sama eftirpartýi en nú er aðeins bætt í stuðið. Hérna finnum við dúettinn Silvan Esso sem er að koma með sína þriðju plötu, Free Love, í enda september og lagið Ferris Wheel fjallar um góðar minningar og bestu óskir um bjarta framtíð.


Tame Impala, Four Tet – Is It True

Kevin Parker er greinilega alveg súperhress með með endurgerð Four Tet á laginu Is It True, svo ánægður reyndar að hann skrifar enska raftónlistarmanninn Kieran Hebden sem meðflytjanda í staðinn fyrir bara endurhljóðblöndunarsérfræðing í sérverkefni.


Christine & the Queens – La Vita Nouva (Logic1000 RMX)

Endum þetta á henni Héloïse Adelaïde Letissier betur þekktri sem Christine í Christine & the Queens. Lagið í La Vita Nouva kom út fyrr á árinu og er svo sem ansi vel heppnað. Það þurfti eiginlega ekkert á viðgerð að halda en endurhljóðblöndunin hjá Logic1000 er samt vel heppnuð og verðskuldar nokkrar hlustanir.


Fimman á Spottanum