Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ábyrgðin verði skilyrt við flugrekstur Icelandair

04.09.2020 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að frumvörp um veitingu ríkisábyrgðar til Icelandair að upphæð 120 milljónir Bandaríkjadollara verði samþykkt og hún skilyrt þannig að fjármununum verði eingöngu varið til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri Icelandair Group. Ekki megi heldur nýta þá til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því til dótturfélaga sem ekki eru í starfsemi hér á landi. Þá yrði Icelandair gert að styrkja fjárhag sinn með útboði.

Í áliti nefndarinnar segir að jafnvægi á milli áhættu og endurgjalds sé tryggt með þeirri leið sem stjórnvöld hafa valið. Veiting ríkisábyrgðar sé mikivæg til að verja uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. „Hugmyndafræðin er að ríkið sé síðast inn og fyrst út,“ segir í álitinu. 

Ábyrgðin er meðal annars veitt á grundvelli rekstraráætlunar Icelandair til 2024. Ábyrgð ríkisins á lánunum er hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins. Ríkissjóður ábyrgist 90% af heildarskuldinni á hverjum tíma og ber Icelandair að greiða lánið svo fljótt sem kostur er. „Skulu endurgreiðslur af lánunum hafa forgang til 75% af lausu fé hjá lántaka sem myndast í rekstri,“ segir í fylgiskjali Ríkissjóðs með álitinu.

Undir álitið skrifa sex af níu nefndarmönnum, þau Willum Þór Þórsson Framsóknarflokki, Birgir Þórarinsson Miðflokki, Njáll Trausti Friðbertsson, Haraldur Benediktsson og Páll Magnússon Sjálfstæðisflokki og Steinunn Þóra Árnadóttir Vinstri grænum.