Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja flýta aðgerðum og bregðast strax við samdrætti

03.09.2020 - 13:47
Blaðamannafundur Viðreisnar
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Viðreisn vill bregðast strax við samdrætti og flýta aðgerðum til að takast á við efnahagsvandann sem Kórónuveirufaraldurinn hefur í för með sér. Útlit sé fyrir að niðursveiflan verði tímabundin og skammvinn og aðgerðir þurfi að miða að því. 

Þetta kom fram á blaðamannfundi í morgun þar sem Viðreisn kynnti efnahagsáætlun sem miðar að því að aðgerðum sé flýtt. Kostnaðurinn er metinn á um 120 milljarða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, segir að grípa þurfi til vopna strax til að takast á við harðan vetur og kreppu sem verður erfið, stutt og snörp.  

„Við gerum það með því að flýta framkvæmdum, fara strax í framkvæmdir sem fela í sér kostnaðarábóta fyrir samfélagið. Við gerum það með því að lækka álögur á lítil og meðalstór fyrirtæki, efla enn frekar nýsköpun og ekki síst að lengja tíma tekjutengdra atvinnuleysisbóta, koma með atvinnuleysisauka og það að hækka viðmiðunarmörk sem að fólk á atvinnuleysisbótum getur unnið.“

Dýrkeypt að bíða

Leggja þurfi áherslu á tímabundnar og markvissar aðgerðir. „Við erum bara að tala um að fjármálastefna verði framhlaðin. Það er dýrkeypt að bíða og það er það sem við erum að segja í Viðreisn. Það fer líklega upp í 30 þúsund núna i september, atvinnuleysistölurnar, þannig að við verðum að veita því fólki einhverja von, einhver svör og utanumhald og ekki síður fyrirtækjunum þannig að þau verði í startholunum þegar við erum komin út úr þessu.“

Núverandi fjármálastefna rikisstjórnarinnar miði frekar að næstu kosningum en þeim vanda sem samfélagið standi nú frammi fyrir. Þá þurfi að taka tillit til þess að höggið verði ójafnt eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum. 

„Svæði eins og til að mynda Suðurnes þurfum við að skoða sérstaklega. Við megum ekki gleyma því að Suðurnesin urðu fyrir miklu áfalli 2006 þegar herinn fór, þá var hrunið, síðan var það WOW í fyrra. Það hefur í raun ekkert verið gert að ráði á Suðurnesjum eftir að WOW féll. Þannig að vanda Suðurnesja er búinn að aukast mjög mikið á liðnum árum og jafnvel áratugum, þannig að við þrufum að horfa já þangað,“ segir Þorgerður. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV