Víðir í veikindaleyfi: „Ég ætla bara að hlýða því“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Ég tók mér frí í síðustu viku og fór upp á hálendi. Þar fór ég að finna fyrir einhverjum skrítnum einkennum í kviðarholinu þegar ég var uppi í Kverkfjöllum. Það rjátlaði af mér en svo þegar nær dró helginni versnaði þetta. Þannig að ég fór til læknis á sunnudaginn, það kom í ljós að ég var með mjög bólginn botnlanga og hann var tekinn úr mér á mánudagskvöldið,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Hann er kominn í tímabundið leyfi frá störfum á meðan hann jafnar sig eftir aðgerðina. 

Víðir segir að botnlangakastið hafi verið ansi sársaukafullt.

„Já þetta eru tóm leiðindi bara, miklir verkir í kviðarholinu sem fylgja þessu.“

Verður þú lengi frá vinnu?

„Þetta eru svona 14 dagar í heildina, þannig að ætli ég verði ekki frá út næstu viku. Botnlanginn var mjög bólginn þannig að ég verð bara að sjá til hvernig ég verð. En ég er dálítið aumur í þessu ennþá og með mikla verki.“

Reynir að gera eitthvað gagn

Aðspurður segist Víðir ekki vita hvort rekja megi botnlangakast til álags, en hann hefur staðið í mjög ströngu síðustu mánuði.

„Ég á bara að fara varlega eins og hver annar og þeir tala um að menn eigi að taka því rólega í 7 til 14 daga. Og ég ætla bara að hlýða því,“ segir Víðir í léttum dúr.

Hann segir að það sé vissulega skrítið að fylgjast með gangi mála í faraldrinum af hliðarlínunni.

„En ég er nú í góðum samskiptum við allt mitt góða samstarfsfólk og fylgist vel með.“

Þannig að þú ert eitthvað að vinna?

„Já já, ég er í símanum, tölvupósti, á messenger og svona. Maður er að reyna að gera eitthvað gagn.“

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi