Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tekju- og eignalitlum auðveldað að eignast íbúð

03.09.2020 - 23:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán var samþykkt á Alþingi í kvöld með 56 atkvæðum. Þeim eru ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum að eignast sína fyrstu íbúð.

Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og brúa bilið á milli lána veittum af fjár­mála­fyr­ir­tækjum og lífeyrissjóðum ann­ars vegar og kaup­verðs hins veg­ar. Hægt verður að fá að láni 20 prósent kaupverðs og lánið ber hvorki vexti né þarf að borga af því á lánstímanum. Lántakendurnir endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að meirihluti þeirra sem eru á leigumarkaði í dag vera í lægstu tekjutíundum samfélagsins. „Hátt í 90 prósent þeirra sem þar eru á leigumarkaðinum vilja komast í eigin húsnæði.“

Með frumvarpinu sé Alþingi að stíga mikilvægt skref til að styðja þennan hóp að komast í eigin húsnæði. „Þetta er mikilvæg viðurkenning á því að það eigi allir rétt á því að eiga eigið þak yfir höfuðið en ekki bara þeir einstaklingar sem eru í hæstu tekjutíundum í íslensku samfélagi. Til hamingju með þetta. Ég er stoltur af þessu máli og ég óska okkur öllum til hamingju með það.“

Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember næstkomandi. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV