Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óttast að börn á flótta flosni úr námi

epa08112466 Children help with the laundry in the refugee camp of Moria, on Lesvos island, Greece, 08 January 2020. In the camp, meant to host 2500 migrants and refugees, nowdays are living more than 18,000 people in poor conditions as the temperatures are around six degrees Celsius.  EPA-EFE/ORESTIS PANAGIOTOU  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
Börn í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eynni Lesbos. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Helmingur allra barna á flótta stundaði ekki skólanám áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Sameinuðu þjóðirnar vara við að faraldurinn minnki enn líkurnar á að milljónir á flótta öðlist menntun.

Í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er varað við því að börn á flótta, einkum þó stúlkur, geti ekki snúið aftur í skólann.

Filippo Grandi forstjóri stofnunarinnar segir ekki hægt að hafa af þeim bjartari framtíð með því að svipta þær möguleikanum til menntunar. Hann kallar eftir aðgerðum til stuðnings menntunar flóttamanna.

Stúlkur eru sagðar í meiri hættu en drengir að verða af tækifærum til menntunar. Þær gangi ungar í hjónaband eða sé gert að vinna heima og að heiman.

Fram kemur að 48 af hundraði barna á flótta séu ekki í skóla. Einkum er ástandið alvarlegt þegar kemur að framhalds- og háskólamenntun. Aðeins 3 af hundraði leggja stund á háskólamenntun en tæp 80 prósent eru í grunnskólanámi. Það er þrátt fyrir allt ögn hærra hlutfall en var 2019.

Í skýrslu Flóttamannastofnunarinnar kemur fram að heimsfaraldur kórónuveirunnar geti valdið bakslagi í þeim árangri sem þó hefur náðst. Til að mynda eigi fólk á flótta ekki þau tæki sem þurfi til að stunda fjarnám og skorti fé til að kaupa nauðsynleg skólagögn.