Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mikið sjónarspil en Nolan-þreyta gerir vart við sig

Mynd: Tenet / .

Mikið sjónarspil en Nolan-þreyta gerir vart við sig

03.09.2020 - 09:16

Höfundar

Bíórýnir Lestarinnar segir leikstjórann Christopher Nolan eins og blöndu af Stanley Kubrick og Michael Bay, þar sem hann reyni jöfnum höndum við listræna framúrstefnu og formúlukenndar hasarklisjur. „Ekkert endilega slæm blanda, en gerir að verkum að mér finnst eitthvað vanta upp á heildina í mynd á borð við Tenet.“

Gunnar Theódór Eggertsson skrifar:

Það fer ekki á milli mála að Tenet er Christopher Nolan-mynd, því hún inniheldur ýmislegt sem tengja má við höfundarstíl leikstjórans: ólínulega frásögn, heimspekilegar pælingar um eðli tímans, sjónrænar útfærslur á flóknum hugmyndum, vandlega úthugsaðar hasarsenur og síðast en ekki síst svokallað „púsluspilsbíó“, frásagnartækni sem beinlínis hvetur áhorfendur til að liggja yfir hverjum þræði og kafa ofan í merkingu hinna ýmsu smáatriða. Okkur er undireins hent út í djúpu laugina og þurfum að beita fullri athygli til að halda í við söguþráðinn sem flækist eftir því sem á líður út í gegn, á meðan persónurnar keppast um að útskýra fyrir okkur plottið.

Eltingarleikur í tveimur tímalínum

Myndin hefst með innrás í klassískan tónleikasal þar sem við kynnumst aðalpersónunni, sem ber ekki annað nafn en aðalpersónan, prótagónistinn, leikinn af John David Washington, og fylgjumst með honum sýna mikla fórnfýsi fyrir málstað sinn. Eftir það er hann verðlaunaður með aðgangi að háleynilegu verkefni sem ber nafn myndarinnar, Tenet, og snýst um nokkurs konar vopnvæðingu á gangi tímans, bæði afturábak og áfram.

Tenet er einkennileg mynd, einna helst vegna þess hvernig leikstjórinn vinnur samtímis út frá tilraunamennsku og formúlum. Annars vegar leikur Nolan sér að frumlegum hugmyndum og sjónrænum pælingum sem reyna á þolrif kvikmyndagerðarinnar sem listforms, og hins vegar gerir hann meginstraumshasar sem minnir á James Bond og svipaðar ofurhetjumyndir. Hasarinn er auðvitað mjög flottur og Tenet er þrusugott bíó. Eltingaleikir sem eiga sér stað samtímis á tveimur ólíkum tímalínum er mögnuð hugmynd og tímaflækjurnar snjallar og skemmtilegar, en þrátt fyrir frumleika og listilega góðar og kvikmyndrænar útfærslur, þá halda þær senur heildinni ekki uppi.

Tenet er löng mynd og sniðin úr sama efni og ótal aðrar „heimsendamyndir“, þar sem stöðva þarf gjöreyðingarvopn í höndum illmennis sem virkar klippt út úr Bond-heiminum. Samtöl eru illa skrifuð og þjóna plottinu umfram allt, upplýsingaflæðið vellur upp úr hverri persónu og tilraun til að glæða kaldan stíl Nolans einhverjum tilfinningum í gegnum sögu af kúgaðri eiginkonu óþokkans er klunnaleg og illa upp byggð, sonur hennar er gerður að þungamiðju tilfinninganna, en ég er ekki frá því að við fáum ekki að sjá eina einustu nærmynd af stráknum, hvað þá að heyra hann segja orð, enda gæti hann líklega ekki tjáð sig neitt um plottið.

Grípandi sjónrænn vísindaskáldskapur

Gott og vel, svona lagað tilheyrir jú, hasarmyndahefðinni, og maður fer víst ekki á Christopher Nolan-mynd fyrir samtölin, en á heildina litið var ég orðinn ansi þreyttur á persónunum þegar yfir lauk. Líklega myndi ég ekki gera svona mikið úr gagnrýni á formúlurnar í venjulegri hasarmynd, en Tenet er auðvitað engin venjuleg hasarmynd, heldur mun dýpri og flóknari en svo, og kannski býst ég alltaf við of miklu af Nolan sem leikstjóra, vegna þess að hann er talinn listrænn kvikmyndahöfundur, sem hann er, vissulega, en hann er líka formúlukarl sem fílar að sprengja upp alvöru flugvél til að gera góða hasarsenu.

Stundum finnst mér eins og Nolan sé blanda af Stanley Kubrick og Michael Bay, sem er ekkert endilega slæm blanda, en gerir að verkum að mér finnst eitthvað vanta upp á heildina í mynd á borð við Tenet. Því verður þó seint neitað að Nolan nær að skapa eftirminnilega bíóupplifun, algjört sjónarspil, og Tenet er mynd sem græðir svo sannarlega á stóra tjaldinu. Leikstjórinn hefur líka eindregið hvatt fólk, þrátt fyrir COVID-tíma, að sjá hana í bíó og alfarið neitað að senda hana samtímis í streymi, sem hefur annars verið vaninn vestanhafs síðustu mánuði. Tenet er grípandi sjónrænn vísindaskáldskapur, vafinn inn í hefðbundið spennumyndaform, sem er þess virði að sjá og skeggræða, þótt ekki sé laust við að ég sé byrjaður að finna fyrir dálítilli Nolan-þreytu.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Christopher Nolan var fyrsta ástin

Mannlíf

Nolan kom með 4,5 tonna geimskip með sér

Mannlíf

Gönguleiðum lokað vegna Hollywoodmyndar

Mannlíf

Ísland lykilstaður hjá Nolan