Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Margir bíða eftir meðferð við eftirköstum COVID-19

Drónamynd af Reykjalundi
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV/Ingvar Haukur Guðmundsson
Um 20 manns bíða þess að komast í meðferð á Reykjalundi, vegna eftirkasta COVID-19 sjúkdómsins. Fjórir eru þegar byrjaðir í meðferð. Framkvæmdastjóri lækninga segir að einkennin séu alvarleg, margir séu töluvert veikir, og allir óvinnufærir. Fólkið er á ýmsum aldri og ekki endilega með undirliggjandi sjúkdóma. Líklegt sé að fleiri þurfi á þessari meðferð að halda á næstunni.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir að stofnunin hafi verið í töluverðu samstarfi við Landspítalann í faraldrinum. Þannig hafi verið tekið við um 20 manns af spítalanum sem veikst hafi alvarlega og þurft á endurhæfingu að halda. Stefán segir að sú endurhæfing hafi gengið mjög vel.

„Síðan kemur upp þessi staða, að fólk er að veikjast og því batnar illa. Þá kemur þessi umræða um „post-covid“ einkenni sem eru margskonar og alvarleg. Og það kviknar mjög fljótlega umræða um það í endurhæfingarheiminum að þarna séu verkefni sem þurfi að skoða mjög vandlega, og reyna að aðstoða fólk.“

Sjá einnig: „Ég vissi að ég var að tipla yfir í handanheiminn“

Stefán bendir á að strax í apríl hafi birst grein í sænska læknablaðinu, um eftirköst COVID-19. Þá hafi menn áttað sig á að þetta væri miklu meira en bara venjuleg flensa. Hann segir að fjölmargir hér á landi hafi fengið eftirköst, og að margir þurfi á endurhæfingu að halda.

„Við erum búin að fá einhverjar 25 beiðnir eða svo. Og þær berast jafnt og þétt,“ segir Stefán, en allar beiðnir um meðferð á Reykjalundi þurfa að koma frá læknum, til dæmis á heilsugæslu eða Landspítalanum.

Verkir og síþreyta

Stefán segir að þegar hafi nokkrir verið teknir í meðferð við eftirköstum sjúkdómsins.

„Það eru átta manns sem við höfum tekið í mat á göngudeild til að fara yfir þeirra einkenni og hvernig væri best að hjálpa þeim. Helmingurinn af þeim er byrjaður í meðferð, þannig að það er nokkur hópur, um 20 manns, sem á eftir að koma í meðferð til okkar. Beiðnir eru komnar en við eigum eftir að vinna úr þeim,“ segir Stefán. Líklegt sé að þessi listi eigi eftir að lengjast.

„Hluti af okkar verkefni er annars vegar að greina hver eru hin raunverulegu vandamál hjá fólki og hins vegar hvers konar meðferð við getum veitt sem er líkleg til að hjálpa. Við greinum þetta með því að mæla til dæmis líkamlegt úthald og þrek og með því að vera með spurningalista og fara vel yfir hvernig andleg líðan er. Og öll þau heilsuvandamál sem fólk nefnir og telur sig hafa fengið í kjölfar veikindanna. Sum þeirra eru frekar óvenjuleg, eins og verkir sem eru flögrandi, hitatoppar og eitt og annað. Þegar við erum búin að þessu reynum við að búa til meðferðaráætlun fyrir hvern og einn og í þeim hluta höfum við ýmis verkfæri sem við erum vön að nota. Við erum vön að þjálfa fólk sem hefur mæði, við erum með góða reynslu í að hjálpa fólki sem er með verki, síþreytu og margt fleira.“

Andleg vanlíðan

Aðspurður segir Stefán að veikindi fólks geti verið ansi slæm.

„Þetta eru veikindi sem eru þannig að fólk er ekki vinnufært. Fólk er ekki rúmliggjandi en fólki líður illa. Það er úthaldslítið og er alls ekki komið í sitt fyrra form.“

Stefán segir að þetta sé fólk á ýmsum aldri og að það sé ekkert endilega með undirliggjandi sjúkdóma. Og þótt fólk sé oft með töluverð líkamleg einkenni, sé andlegi þátturinn oft ekki síður erfiður.

„Þetta hefur verið mjög erfið upplifun fyrir marga. Það er heilsukvíði, depurð, andleg vanlíðan og þetta úthaldsleysi og mæði tekur á fólk. Sumir hafa ekki getað snúið aftur til vinnu og til daglegs lífs með eðlilegum hætti og er ekki líkt sjálfu sér.“

Stefán segir að meðferðin taki að jafnaði um sex vikur. Hún sé greidd af Sjúkratryggingum Íslands og því þurfi fólk ekki að greiða fyrir hana sjálft.