Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mál sjö kvenna á borði Sævars

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Sævar Þór Jónsson, lögmaður konu sem hyggur á skaðabótamál við Krabbameinsfélagið vegna rangrar niðurstöðu úr leghálssýnatöku, hefur fengið sjö fyrirspurnir vegna sambærilegra mála. Tvær þeirra eru frá aðstandendum kvenna sem látist hafa úr krabbameini og ein frá aðstandendum konu sem er langt leidd af krabbameini.

Allar sjö fyrirspurnirnar, sem hafa borist Sævari tengjast konum sem fóru í leghálssýnatöku árið 2018, sama ár og umrædd kona, og fengu þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert. Allar hafa þær síðan greinst með krabbamein.

Tvær fyrirspurnanna eru frá aðstandendum kvenna sem nú hafa látist af völdum krabbameins. „Og svo er eitt tilvik þar sem einstaklingur er langt leiddur, það langt leiddur að aðstandendur hafa tekið við málinu og vilja fylgja því eftir,“ segir Sævar.

Hann segir að hann sé nú í viðræðum við Krabbameinsfélagið vegna máls konunnar sem þegar hefur ákveðið að fara í skaðabótamál. „Síðan eru náttúrulega samskipti við landlækni þar sem við erum að fara fram á það það verði gerð úttekt á einstökum málum. Það er reyndar eitt mál sem er komið inn á borð til mín sem ég ætla að óska eftir að Landlæknisembættið kanni til hlítar.“

Er það  mál einstaklings sem er látinn? „Já, það er mál einstaklings sem er látinn.“

Sævar segir erfitt að nefna einhverjar upphæðir hugsanlegra skaðabóta. Fá sambærileg fordæmi séu hér á landi fyrir málum sem þessum, tilgangurinn sé fyrst og fremst að vekja athygli á brotalömum í kerfinu. Krabbameinsfélagið endurskoðar nú 6.000 sýni úr leghálsskoðun. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur þegar verið farið yfir 1.800 sýni og 30 konur hafa verið kallaðar inn til nánari skoðunar.

„Það væri mikil tilviljun ef þessi mistök sem virðast hafa verið viðhöfð í svolítinn tíma, að það ætti bara við um einn einstakling,“ segir Sævar.