Þrír af hverjum fjórum voru því fylgjandi að fara að dæmi nokkurra nágrannaþjóða okkar sem veita dauðvona sjúklingum dánaraðstoð. Eitt þeirra landa sem vitnað er til í skýrslu heilbrigðisráðherra er Sviss.
Drakk blönduna og dó
Er gigtin fór að jafna um Lilly, fannst Lilly komið nóg. Þá nennti hún ekki að lifa lengur, lagði sig og hafði samband við félagið Virðingu (Dignitas), sem sendi mann til hennar með efnablöndu, nánar tiltekið Pentobarbital-Natríum í glasi sem hann rétti Lilly. Hún drakk blönduna og dó í sínu eigin rúmi á sínu eigin heimili.
Kvöldið áður hafði þessi níræði nágranni minn boðað okkur vini og kunningja til sín í kveðjuhóf án þess að fela hvað stæði til. Það var fremur glatt á hjalla. Ég spurði Lilly hvort hún velti ákvörðun sinni ekki tvisvar fyrir sér þarna þar sem hún gekk á milli manna, að því er virtist nokkuð hress og umkring ást og vinskap. “Kannski ef það væri svona alla daga,” sagði hún “en það er það ekki, langt í frá”. Morguninn eftir drakk hún blönduna sína og dó umkringd sínum nánustu.
Í boði í 20 ár
Sviss er eitt af fáum löndum þar sem aðstoð við sjálfsvíg af þessu tagi er ekki refsiverð. Það er þó vegna glufu í löggjöf landsins fremur en beinnar lagaheimildar sem nokkur félög, einkum Virðing og Útleið (Dignitas og Exit), sem reyndar eru alþjóðleg samtök, hafa síðastliðin 20 ár boðið félagsmönnum sínum líknaraðstoð af þessu tagi í Sviss. Í hundruðustu og fimmtándu grein svissnesku hegningarlaganna, sem stöðugt er vitnað í þegar dánaraðstoð ber á góma í Sviss, er refsivert að aðstoða eða hvetja einstakling til sjálfsvígs vegna einkahagsmuna. En ef ástæðan er önnur er kíkirinn hér settur fyrir blinda augað og það látið svissnesku læknasamtökunum og siðanefnd þeirra eftir fremur en svissneska þinginu að ákveða hvar mörkin skulu sett. Enda má aðeins læknir skrifa upp á dauðaskammtinn þótt hann þurfi ekki endilega að vera viðstaddur þegar skammturinn er afhentur þeim sem vill binda enda á líf sitt. Samkvæmt reglum þeirra félagasamtaka sem bjóða aðstoð sína við að stytta aldur félaga sinna, og segjast gera það af hugsjón en ekki hagnaði þótt athöfnin kosti í heildina um eina milljón króna, eru skilyrðin ströng: Vera skráður í félagið, vera 18 ára eða eldri, hafa óskerta dómgreind og þjást annað hvort af ólæknanlegum sjúkdómi, óbærilegum kvölum eða ellitengdri fötlun. Líkt og Lilly þurfa þeir sem telja tíma sinn kominn að fara í gegnum umsóknarferli með lækni eða sálfræðingi áður en gefið er grænt ljós á að veita þeim aðstoð við endalokin.
Leyft í Kanada og Benelúx-löndunum
Sá sem vill aðstoð við að deyja hér í Sviss þarf sjálfur að drekka dauðablönduna eða sjúga hana í gegnum strá. Í þá sem eru aðframkomnir er sett nál en þeir verða sjálfir að skrúfa frá vökvanum. Aðstoð við sjálfsvíg af þessu tagi eru ekki einsdæmi því þau eru líka leyfð í t.d. Benelux-löndunum og Kanada þótt þar sé ramminn töluvert þrengri en í Sviss. Það sem er sérstakt við Sviss, ólíkt nefndum löndum, er að hér er önnur dánaraðstoð bönnuð nema vitanlega líknarmeðferð, sem samkvæmt ströngustu skilgreiningu er líka ákveðin dánaraðstoð. Þrátt fyrir frjálslyndi Svisslendinga í að aðstoða við sjálfsvíg er hér hins vegar bönnuð bæði óbein dánaraðstoð, sem felst í því að sleppa eða hætta lyfjagjöf eða lífsnauðsynlegri tækjaaðstoð sem og bein dánaraðstoð, eða líknardráp, sem felst hreinlega í því að gefa sjúklingi náðarsprautuna.
Tekist á um hvar mörkin liggja
Eins og kemur fram í nýrri skýrslu heilbrigðisráðherra um hugsanlega dánaraðstoð á Íslandi er sú tilhneiging til staðar þar sem þessi gátt hefur verið opnuð að víkka túlkunina. Í Sviss er reglulega tekist á um hvar mörkin eigi að liggja og hversu vítt eigi að túlka hugtökin eins og óbærilegar kvalir eða ellitengd fötlun, og hvað er óskert dómgreind. Til að koma í veg fyrir allan vafa um það bjóða sum félög, sem að þessu standa í Sviss, fólki að skjalfesta vilja sinn löngu fyrirfram svo það komi ekki í veg fyrir lokaáfangann þótt viðkomandi sé þá löngu kominn út úr heiminum.
Í fyrra var læknir dæmdur hér í Sviss fyrir að aðstoða aldraða konu við að ljúka lífi sínu á þeirri forsendu einni að hún vildi kveðja heiminn með eiginmanni sínum sem þjáðist af ólæknandi sjúkdómi og sem hafði fengið sinn dauðaskammt á þeirri forsendu. Var það óbærileg þjáning fyrir gömlu konuna að lifa eiginmann sinn? Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði ekki verið en læknirinn slapp með sekt.
Ættingjar á móti
Fyrir kemur líka að ættingjar setji sig upp á móti sjálfsvígi af þessu tagi og láti á það reyna fyrir dómi hvort viðkomandi uppfyllir viðurkennd skilyrði. Dómur féll líka nýverið í Sviss yfir lækni sem veitti svo fötluðum sjúklingi dánarstuðninginn að sá gat aðeins rétt hreyft annan fótinn til að samþykkja að læknirinn setti ofan í hann vökvann. Það var talið fara yfir mörkin og læknirinn hlaut dóm fyrir. Til að létta þessari byrði af dómstólum setti Genfarkantóna í Sviss upp eftirlitsnefnd fyrir tveimur árum með sérfræðingum á laga- og læknasviði sem hægt er að leita til með ágreining og álitsgerð af þessu tagi og í raun eru kantónurnar í Sviss misjafnlega opnar fyrir aðstoð við sjálfsvíg. Þrjár þeirra hafa heimilað slíkt inni á sjúkrahúsum og elliheimilum en öðrum, einkum þeim kaþólskustu, er þetta allt þyrnir í augum.