BBC greinir frá því að Johnson, eiginkona hans Lauren og dætur þeirra Jasmine og Tiana hafi smitast fyrir hálfri þriðju viku. Dæturnar eru tveggja og fjögurra ára.
Að sögn smituðust þau af nánum vinum sínum sem höfðu ekki hugmynd um hvar þeir hefðu smitast. Johnson segir það hafa verið erfiða áskorun fyrir fjölskylduna að veikjast, tíðindin af jákvæðri niðurstöðu skimunar hafi verið eins og að fá spark í magann.
Að sögn leikarans hefur fjölskyldan jafnað sig alveg af Covid-19 sem hann kveðst þakklátur fyrir, því hann viti að þannig fari ekki alltaf. Johnson hvetur fólk til að nota andlitsgrímur og gæta að almennu hreinlæti. Sömuleiðis skuli fara varlega í að efna til mannfagnaða en halda þó í jákvæðnina.
Hann kveðst undrandi á stjórnmálamönnum sem beiti umræðunni um grímunotkun í pólítískum tilgangi. Slíkt hafi ekkert með stjórnmál að gera heldur sé skynsamlegt að vernda sig og sína með því að bera andlitsgrímu.
Dwayne Johnson hóf feril sinn sem fjölbragðaglímukappi áður en hann sneri sér að leiklistinni. Meðan hann stundaði íþrótt sína gekk hann undir heitinu Kletturinn eða The Rock. Johnson er nú einhver hæst launaði leikari heims oghefur leikið í vinsælum kvikmyndum á borð við The Scorpion King og Jumanji.