RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Hápunktar vetrardagskrár

Mynd: RÚV / RÚV
Haustinu er tekið fagnandi á RÚV með fjölbreyttri og vandaðri dagskrá. Ýmsar nýjungar eru kynntar til sögunnar í bland við þekkta dagskrárliði. Að venju verður áhersla lögð á vandaða innlenda dagskrá, nýtt íslenskt leikið efni og fjölbreytt menningarefni ásamt góðum skammti af skemmtun, fræðslu, íþróttum og barnaefni.

Um miðjan september hefjast sýningar á Ráðherranum, nýrri þáttaröð sem segir frá baráttu forsætisráðherra við geðhvarfasýki og tilraunum samstarfsfólks hans til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni, jafnvel þó það ógni stöðugleika ríkisins. Þá verður sérstök sjónvarpsútgáfa af kvikmyndinni Gullregn sýnd í þremur hlutum, en kvikmyndin er byggð á samnefndu leikriti sem sló í gegn árið 2012. 

Nýjasta tækni og vísindi snýr aftur á skjáinn í september eftir langt hlé og íslenskar vísindarannsóknir verða í forgrunni. Í Tónatali, nýrri íslenskri þáttaröð, talar Matthías Már við íslenskt tónlistarfólk um feril þeirra og fær það til að spila sín eftirlætislög. Smáborgarasýn Frímanns hóf göngu sína í ágúst. Þar er Frímann Gunnarsson á ferð um landið og fræðist um þjóðarsálina utan höfuðborgarinnar. 

Heimildarmyndir og heimildarþættir verða áberandi í dagskrá RÚV í vetur.  Í september sýnum við nýja íslenska heimildarþætti: Í góðri trú - saga íslenskra mormóna í Utah. Þar er sögn áður ósögð saga fyrstu vesturfaranna, íslenskra mormóna, sem fluttu til Utah á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Í desember er komið að heimildarmyndinni Stolinni list sem fjallar um listaverkaþjófnað gömlu nýlenduveldanna. Á nýjum stað fjallar um sex þýskar konur sem fluttu til Íslands á miðri síðustu öld þegar auglýst var eftir konum til starfa á bóndabæ. Vandaðar erlendar heimildarmyndir og þættir verða einnig á dagskrá. Má þar nefna myndir Louis Theroux og Stacey Dooley, menningartengdar heimildarmyndir um Nile Rodgers, Leonard Bernstein, Buena Vista Social Club og Agöthu Christie og þáttaröð BBC um menningarsögu mannkyns. 

Gæðaefni frá öllum heimshornum

Rík áhersla er lögð á vandað erlent efni frá öllum heimshornum. Af nýjum áhugaverðum þáttaröðum má nefna Snilligáfu Einsteins, sem fjallar um ævi og störf Alberts Einstein. Fósturbræður, eða Back, eru gamanþættir frá BBC með David Mitchell, Robert Webb og Louise Brealey í aðalhlutverkum. Þegar rykið sest er ný dönsk þáttaröð í tíu hlutum sem segir sögu ólíks fólks fyrir og eftir hryðjuverkaárás í Kaupmannahöfn. Innrásin frá Mars er svo leikin þáttaröð frá BBC sem byggð er á frægu útvarpsleikriti H. G. Wells. Þá verða sýndar skemmtilegar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna og má þar nefna kvikmyndirnar Zootropolis, Annie og Stúart litla. Á norrænum bíódögum er áhersla lögð á gæðakvikmyndir frá Norðurlöndum. Sunnudagar verða evrópskir bíódagar í tilefni af evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem afhent verða á Íslandi í desember. Þá eru ótaldar fjölmargar verðlaunamyndir sem sýndar verða á RÚV í vetur. Myndir á borð við Óskarsverðlaunamyndina Parasite og sænsku myndina Gränsen. Bíóást heldur einnig áfram en þar eru sýndar kvikmyndir sem valdið hafa straumhvörfum í kvikmyndasögunni.  

Ekki má gleyma gömlum heimilisvinum sem halda áfram á RÚV. Kiljan verður á sínum stað, Menningin, Silfrið, Landinn, Kveikur, Gettu betur, Vikan, Okkar á milli, Með okkar augum, Kappsmál og Klassíkin okkar svo dæmi séu tekin. 

Vönduð íþróttaumfjöllun verður áfram á RÚV þar sem hápunktum í íþróttaheiminum verða gerð góð skil, með sérstakri áherslu á íslensk landslið og afreksfólk. Nýr íþróttaþáttur hefur göngu sína í vetur þar sem fjallað verður um Ólympíumót fatlaðra. 

Á KrakkaRÚV láta krakkar ljós sitt skína í fjölbreyttri dagskrá. Fjölmargar þáttaraðir af talsettu barnaefni verða í boði, Stundin okkar og Krakkafréttir verða einnig áfram á sínum stað og ný vikuleg þáttaröð um barnamenningu og fræðslu, Húllumhæ, hefur göngu sína.

03.09.2020 kl.12:23
vefritstjorn's picture
Vefritstjórn
Birt undir: Í umræðunni