Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fellibylurinn Maysak skellur á Kóreuskaga

03.09.2020 - 02:14
epa08640896 Waves hit the coast of the southeastern port city of Busan, South Korea, 02 September 2020, as Typhoon Maysak approaches the Korean Peninsula.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA
Hið minnsta ein kona er látin og yfir tvö þúsund hafa þurft að leita skjóls eftir að fellibylurinn Maysak kom að landi á suðurstönd Suður-Kóreu. Það er í annað sinn í sömu vikunni að fellibylur gengur yfir Kóreuskaga.

Um það bil 120 þúsund heimili eru án rafmagns í sunnanverðu landinu og á eynni Jeju. Vindhraðinn er nú um 39 metrar á sekúndu.

Mat Veðurstofu Suður Kóreu er að smám saman muni draga úr styrk fellibylsins meðan hann gengur yfir landið. Þó er búist við miklu hvassviðri áfram og úrhellisrigningu, allt að 200 millímetrum.

Fellibylurinn Maysak hefur innreið sína í Norður-Kóreu klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Að sögn AFP fréttastofunnar er hætta á að náttúruhamfarir hafi verri afleiðingar þar í landi en hjá nágrönnum þeirra.

Ástæðan er sögð vera veikir innviðir ríkisins auk þess sem flóð geta valdið miklum skaða. Kim Jong Un leiðtogi Norður-Kóreu sagði í síðustu viku að fellibylurinn Bavi sem gekk yfir í síðustu viku hefði valdið minna tjóni en óttast hefði verið.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV