Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Donald Trump beinir spjótum að grímulausri Nancy Pelosi

Mynd með færslu
 Mynd: Fox News
Donald Trump Bandaríkjaforseti lét Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings finna til tevatnsins eftir að myndir náðust af henni grímulausri á hárgreiðslustofu í San Francisco.

Með því að fara í hárgreiðslu væri Pelosi sömuleiðis að brjóta reglur um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins.

Pelosi sjálf hefur iðulega gagnrýnt forsetann mjög fyrir framgöngu hans og stuðningsmanna hans gagnvart faraldrinum. Í júní síðastliðnum setti hún ofan í við Trump vegna tregðu hans við að hvetja til grímunotkunar. Alls hafa um 180 þúsund orðið Covid-19 að bráð vestra.

Á eftirlitsmyndavélum má sjá Pelosi ganga milli herbergja hárgreiðslustofunnar án grímu. Enn er bannað að veita þjónustu á borð við snyrtingu og hárgreiðslu í San Francisco.

Pelosi segir eiganda stofunnar hafa afvegaleitt sig með því að segjast mega taka á móti einum viðskiptavini í einu. Hún vill ekki biðjast afsökunar en segist hafa fallið í gildru. Hún tæki ábyrgð á því og að hafa treyst orðum hárgreiðsludömunnar sem hún hefur átt viðskipti við um árabil.

Drew Hammill aðstoðarstarfsmannastjóri þingforsetans segir hana alltaf fara að reglum og nota andlitsgrímu. Hann tekur jafnframt undir með Pelosi og segir henni hafa verið boðið að koma á hársnyrtistofuna undir þeim formerkjum að borgin hefði leyft einn viðskiptavin þar í senn.